137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur nokkurra spurninga í ljósi ræðu hennar áðan. Ég vil inna hana nánar eftir því sem hér hefur reyndar verið vikið að, hvort hún teldi, hvort skilja mætti orð hennar svo að það hefði verið þörf á mun aðhaldssamara frumvarpi af því tagi en hér liggur fyrir, hvort það sé mat hennar að það hefði nægt til þess að fullnægja þeim kröfum, ef við getum kallað það svo, sem ætla má að peningastefnunefnd geri.

Í öðru lagi vil ég spyrja hana hvort hún telji í raun og veru að aðgerðir eins og t.d. hækkun tryggingagjalds sé til þess fallin (Forseti hringir.) að auka atvinnustig í landinu. Og ég spyr hv. þingmann, (Forseti hringir.) ekki síst sem hagfræðing, hvort hækkun á launatengdum gjöldum sé til þess fallin eða ekki að auka atvinnustig (Forseti hringir.) í landinu og leiða til þess að fleiri fyrirtæki ráði til sín fólk. (Heilbrrh.: Spurðu sjálfan Vilhjálm Egilsson.)