137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vandi íbúðakaupenda með myntkörfulán.

[15:18]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrirspurnina. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að mörg þeirra heimila sem skuldsettu sig í erlendri mynt, sérstaklega vegna fasteignakaupa, hafa horft upp á höfuðstól lánanna aukast mjög verulega, jafnvel ríflega tvöfaldast ef skuldirnar voru í myntum eins og jenum og svissneskum frönkum. Það er talsverður fjöldi sem er í þeirri stöðu. Ef ég man rétt kom það fram í úttekt Seðlabankans að um 3% þeirra sem eru með húsnæðislán væru með þau alfarið í erlendri mynt og 8% að auki væru með lán að hluta í erlendri mynt og að hluta í innlendri. Það er hlutfallið um það bil.

Viðbrögðin við þessu hafa verið ýmiss konar. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður benti á, að fólki hefur verið boðið að lækka allverulega mánaðarlegar greiðslur vegna þessara lána, um það bil þannig að þær hafi verið færðar aftur til þeirrar upphæðar sem átti að greiða í maí 2008 áður en krónan fór að gefa verulega eftir. Það er hins vegar alveg rétt að það breytir ekki neinu um höfuðstól lánanna, hann lækkar í sjálfu sér ekki, alla vega ekki sjálfkrafa, nema krónan styrkist.

Því til viðbótar hefur verið gripið til úrræða sem felast í því að lánastofnanir og Íbúðalánasjóður hafa skuldbundið sig til þess að bjóða upp á sambærileg úrræði, reyndar ekki bara fyrir þessa lántakendur heldur fyrir ýmsa aðra líka. Það felur í sér að þeir sem t.d. hafa orðið fyrir tekjutapi geta fengið talsvert meiri lækkun mánaðargreiðslna, jafnvel algjöra frystingu.

Það má vera að það nægi ekki og þá stendur upp á ríkisstjórnina að bæta í og það kann vel að vera að verði gert.