137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að ríkið hyggist fela sérstakri stofnun umsjón með eignarhlut sínum í bönkunum. Ég tel að það muni gera ríkið að virkari og faglegri eiganda með ákveðinni fjarlægð frá hinu pólitíska valdi og það er ágætlega rakið í frumvarpinu. Hitt er annað mál að mér finnst full ástæða til að í hv. viðskiptanefnd verði umræða um það hvort eignarhaldsfélag gæti ekki verið heppilegra fyrirkomulag en stofnun að hætti Bankasýslu ríkisins. Eignarhaldsfélag væri bæði fjær hinu pólitíska valdi og mundi takmarka fjárhagslega ábyrgð ríkisins. Það er þó rétt að halda því til haga að takmörkuð fjárhagsleg ábyrgð ríkisins gæti þó dregið úr trausti á bankakerfið og veikt það en það er mjög mikilvægt að hv. viðskiptanefnd skoði þetta gaumgæfilega.

Úr því að hæstv. fjármálaráðherra minntist á Mats Josefsson þá vil ég benda á að hann hefur mælt með því að eignarhald ríkisins sé í opinberu hlutafélagi en ekki í stofnun og bendi ég hv. viðskiptanefnd jafnframt á það. Ég vil líka tjá þann hug minn að ég hefði viljað fá þetta frumvarp í efnahags- og skattanefnd en það hefur ekki gengið eftir og það er af þeim ástæðum — og þar er ég sammála hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni — að þar hefur frumvarp um eignaumsýslufélag verið til umfjöllunar. Ég styð það mál, sem sagt eignaumsýslufélagið, en hef haft áhyggjur af því hver eigi að hafa t.d. frumkvæði að því að eignaumsýslufélagið komi að endurskipulagningu fyrirtækja. Það er hætta á ákveðinni togstreitu þegar utanaðkomandi félag á að hafa leyfi til að fara inn í bankana og vinna þar að endurskipulagningu fyrirtækja sem þar eru í viðskiptum og standa illa.

Virðulegi forseti. Ég tel að það væri mjög heppilegt að vinna þessi frumvörp samhliða þannig að eignaumsýslufélagið heyrði undir eignarhaldsfélagið eða Bankasýsluna ef ekki vill betur svo að eignaumsýslufélagið hafi skýrt umboð frá þeim sem fer með eignarhald ríkisins í bönkunum. Ég vil ítreka þá skoðun mína að ég tel óheppilegt að þessi mál séu ekki unnin í meira samræmi, þ.e. eignaumsýslufélagið og Bankasýslan eða eignarhaldsfélagið, þar sem gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt samfélag og þar að auki gæti það leitt til minni kostnaðar ef meira samræmi væri. Ég bið því fulltrúa í hv. viðskiptanefnd að huga að þessu. Ég treysti því að ég fái fulltingi hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar í efnahags- og skattanefnd til að við beitum okkur fyrir því að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem ég hef reifað hér.