137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:34]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Í dag leggjum við þingmenn Borgarahreyfingarinnar fram okkar fyrsta frumvarp. Ég er ákaflega stolt af þessu frumvarpi því að ég tel að verði það að lögum verði um stórkostlegar lýðræðisumbætur að ræða. Lýðveldið Ísland er ekki gamalt og saga þess ekki löng. Íslendingar máttu búa við stjórn erlends konungs öldum saman og því voru stigin mikil framfaraskref þegar fullveldinu var náð árið 1918 og svo með sjálfstæði þjóðarinnar 1944.

Lýðræði hér á landi hefur því miður þróast út í flokksræði og fólkið í landinu hefur ekki verið spurt álits nema á fjögurra ára fresti. Sá möguleiki að 10% kosningarbærra manna geti með undirskrift sinni krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um stór og mikilvæg mál, svo sem Icesave-samninginn og ESB-aðild, svo nefnd séu þau mál sem eru efst á baugi nú, veita bæði framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu nauðsynlegt aðhald sem hefur skort. Í gegnum tíðina höfum við margoft orðið vitni að því að stjórnarflokkarnir hafa komið sínu fram með harðræði í stórum málum sem hafa klofið þjóðina í tvennt.

Ólíkt því sem stjórnvöld virðast oft halda er almenningur nokkuð glúrinn og vel treystandi til þess að taka upplýsta ákvörðun um eigin framtíð. Nái þetta nýja frumvarp, fyrsta frumvarp Borgarahreyfingarinnar, fram að ganga mun þjóðin fá tækifæri til þess þegar mikið liggur við.

Ég vil taka undir orð þeirra hv. þingmanna Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Illuga Gunnarssonar að við þyrftum að ganga enn lengra og fara í þær stjórnarskrárbreytingar sem þarf að gera til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla verði bindandi.