137. löggjafarþing — 28. fundur,  29. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[10:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar lifum um efni fram. Við Íslendingar rekum ríkissjóð okkar með 500 millj. kr. tapi á dag sem við skiljum eftir sem auknar skuldir á börnum okkar og barnabörnum. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er mikilvægt skref til að snúa þeirri þróun við. Hér er fyrst og fremst verið að falla frá útgjöldum og skattalækkunum sem ákveðnar voru í hámarki góðærisins og sagan hefur sýnt að við höfum einfaldlega ekki efni á. En við munum ekki skatta okkur eða skera niður til að koma hagsveiflunni í gang. Hins vegar eru þessar aðgerðir nauðsynlegar til að auka og endurreisa trúverðugleika í ríkisfjármálum og efnahagsmálum, til að styrkja gengi krónunnar, til að lækka vexti í landinu og skapa almenn skilyrði fyrir atvinnulífið, til að skapa ný störf í landinu og efla og auka þá verðmætasköpun sem farsæld okkar á komandi missirum mun byggja á.