137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

útlánareglur nýju ríkisbankanna.

[15:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Vart þarf að fjölyrða um vandræði og ófarir íslenskra viðskiptabanka á undanförnum missirum sem nú eru komnir í ríkiseigu. Við skulum, flest ef ekki öll, vona að þeir verði komnir í hendur manna sem kunna að reka þá á næstu vikum eða mánuðum og að mínu viti vonandi að einhverju leyti og kannski stórum hluta í eigu útlendinga því að sagan sýnir okkur að ekki kunna Íslendingar mjög vel að fara með þessar stofnanir.

Nú heyrast ýmsar sögur innan úr þessum nýju ríkisbönkum, virðulegi forseti, um útlán sem þar eru stunduð. Mörgum er um og ó og þeir segja að útlánastefnan líkist mjög því pólitíska mynstri sem var við lýði í gömlu ríkisbönkunum. Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra hvort útlánareglur nýju ríkisbankanna séu að einhverju leyti fastmótaðar, gagnsæjar og gildi jafnt fyrir alla lántakendur. Hefur hæstv. viðskiptaráðherra fengið formlegar kvartanir vegna útlánareglna þessara banka? Hafa bankastjórar, stjórnarmenn og deildarstjórar innan þessara banka frjálsar hendur með lánveitingar eða fer þetta allt saman að einhverju leyti í gegnum óháða lánanefnd?