137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mörgum spurningum er ósvarað. Hæstv. fjármálaráðherra verður að gera sér grein fyrir því að það er mjög eðlilegt að við vörpum fram spurningum í þessari umræðu. Varðandi það að bíða í tvo daga eftir einhverjum upplýsingum og hæstv. ráðherra virðist saka þann sem hér stendur um að vera dálítið bráðlátur í þeim efnum, þá vil ég upplýsa hæstv. ráðherra um að það er kallað eftir upplýsingum sem þessum sem við erum að spyrja um daglega úti í samfélaginu. Hvernig stendur á því að greiðsluáætlunin sem ég bað um í efnahags- og skattanefnd fyrir mörgum vikum hefur ekki litið dagsins ljós? Hvernig stendur á því? Jú, væntanlega vegna þess að hún er ekki tilbúin. Eða verður þetta þannig að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra munu halda enn einn blaðamannafundinn þannig að við þingmenn getum horft á þetta í beinni útsendingu í sjónvarpinu þar sem falleg svipmynd þessara tveggja ráðherra er dregin upp? Þau mæta vel förðuð til leiks og kynna sín mál í stað þess að koma fyrst fyrir þingið og veita okkur upplýsingar, jafnvel fyrir nefndir þingsins þannig að þingmenn geti komið undirbúnir til umræðunnar í fjölmiðlum með allar upplýsingar í höndunum. Því miður höfum við ekki greiðari aðgang að upplýsingum en almenningur í landinu en þó erum við kjörin til að standa vörð um hagsmuni almennings á vettvangi Alþingis.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann hefði upplýsingar um skuldastöðu sveitarfélaganna vegna þess að honum er tíðrætt um stöðu ríkissjóðs en það er einfaldlega þannig að skuldir sveitarfélaganna eru líka skuldir almennings. Þegar við köllum eftir einhverju heildaryfirliti dag eftir dag eftir dag og erum síðan í hinu orðinu sökuð um að vera svolítið óþolinmóð þá er það ekki að undra vegna þess að þær upplýsingar sem við fáum ekki eru allt of margar, allt of mörgum spurningum er ósvarað og þess vegna er eðlilegt að hæstv. ráðherra setji sig (Forseti hringir.) á mælendaskrá í þessari umræðu og svari þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hann áðan.