137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:40]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins í ljósi orða hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að nefna þá vinnu sem nú er í gangi á milli menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.

Sú vinna fór í rauninni í gang strax í mars og þá komust ráðuneytin kannski ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Þar var unnið heilmikið starf hvað varðaði sumarnámið og sérstaklega lögð áhersla á það hvernig þessi ráðuneyti gætu tekið höndum saman um að tryggja stöðu námsmanna í sumar. Það skilaði ágætisárangri og nú eru þessi ráðuneyti aftur sest saman við að skoða þetta samspil.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að við erum auðvitað stödd í aðstæðum sem eru okkur að mörgu leyti framandi með þetta mikla atvinnuleysi og þennan mun á milli atvinnuleysisbóta og námslána sem skyndilega er orðið raunverulegt vandamál. Ég lít svo á að það sé vandamál að grunnframfærslan sé þetta miklu lægri en atvinnuleysisbæturnar, hún er í 100.600 kr. og atvinnuleysisbætur í kringum 150, svo má segja að fólk fái nú aldrei það allt út, því að þetta er auðvitað skattlagt líka, en það er kannski að fá 145 þúsund, eitthvað svoleiðis, út úr sjóðnum. Þarna er samt of mikill munur á milli sem gerir það að verkum að fólk hikar við að fara í nám. Mörkin hafa verið þau að fólk á að geta tekið eitt námskeið t.d. í háskóla og samt verið á bótum en síðan ætti það að fara á lán ef það tekur meira. Þessar skilgreiningar þarf að skerpa og á það erum við m.a. að horfa í þessari vinnu en líka þetta samspil fjármuna, því að eins og hv. þingmaður kom inn á er ljóst að rammi menntamálaráðuneytisins dugar ekki til að stórauka framlög til sjóðsins. Þannig er það því miður, við horfum til þess núna að hann verði ekki skorinn, ólíkt öðrum stofnunum ráðuneytisins, en samt ráðum við ekki við að hækka framfærsluna. Til þess að geta hækkað hana svo næmi verðlagsbótum þyrftum við u.þ.b. 1,3 milljarða og þá gætum við hækkað framfærsluna sem næmi verðbótum í raun og veru þannig að hún fylgdi verðlagi.

Þetta erum við sem sagt að skoða í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, hvort við getum náð einhverri lendingu þarna á milli.