137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni nefndarinnar kærlega fyrir gott samstarf í þessu máli. Þetta er gott mál sem nefndarmenn hafa unnið að og eru í rauninni sammála um efnisatriði þess. Jafnframt vil ég hrósa menntamálaráðherra sérstaklega fyrir að gefa sér tíma til að vera með okkur í þessari umræðu.

Við höfum fengið góða gesti á fundi nefndarinnar, fulltrúa frá stúdentahreyfingunum og námsmönnum sem og forsvarsmenn sjóðsins sjálfs þannig að við gerðum okkur ágætlega grein fyrir sjónarmiðunum varðandi það enda höfum við nefndarmenn komið fram með þau sjónarmið og þær athugasemdir í nefndarálitinu að við höfum ákveðnar áhyggjur af því að stjórn lánasjóðsins setji reglur um lánshæfismat og sé í rauninni í sjálfsvald sett hvaða skilyrði námsmenn þurfi að uppfylla til að fá lán. Við höfðum áhyggjur af því í nefndinni að þessar breytingar á lögunum gætu orðið til þess að reglurnar yrðu þrengdar þannig að það yrði í raun erfiðara fyrir námsmenn að fá lán. Við hnykkjum á því sameiginlega í þessu nefndaráliti og óskum eftir því að eftir því verði farið í framtíðinni svo ekki þrengi að úrræðum námsmanna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og það er fyrirvari varðandi kostnaðarmat frumvarpsins. Kostnaðarmatið er ekki mjög burðugt varðandi það hvaða afleiðingar þetta muni hafa á afkomu sjóðsins og jafnframt á það í rauninni hverjar afleiðingarnar eru varðandi afkomu sjóðsins í heild sinni. Skýringarnar sem við fengum eru þær að upplýsingar hafi ekki verið teknar saman eða haldið til haga varðandi það hvenær og í hve miklum mæli reynir í raun á ábyrgðarmannakerfið.

Það er svo sem erfitt að koma með heilsteypta tölu á það hvaða kostnaður er áætlaður en engu að síður hefði verið gott og í rauninni nauðsynlegt að fá áætlun á því hvernig þetta gæti komið út. Aðrir lánasjóðir á Norðurlöndunum hafa ekki stuðst við ábyrgðarmannakerfi eins og við höfum gert á Íslandi og þeir kollegar okkar í lánasjóðunum á Norðurlöndunum hafa litið hýru auga á ábyrgðarmannakerfi okkar þar sem afkoma Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið góð og innheimtur góðar. Það er því ástæða til þess að þingheimur sé upplýstur um að sú ákvörðun sem verður tekin hér með samþykkt þessa frumvarps kemur til með að hafa áhrif á það hvernig innheimtur verði og gæti haft þær afleiðingar til lengri tíma að lántökukostnaður sjóðsins hækkar.

Ég vildi bara gera grein fyrir þessum fyrirvara okkar sjálfstæðismanna í nefndinni en þakka að öðru leyti kærlega fyrir samstarfið varðandi þessi mál.