137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var skemmtileg tilkynning sem kom rétt í þessu hjá þér því ég ætlaði að koma upp og ræða um fundarstjórn forseta eftir þessa ræðu mína því að hér erum við búin að bíða eftir því að gert yrði fundarhlé sem var tilkynnt að yrði út af einhverjum blaðamannafundi sem ríkisstjórnin ætlaði að halda. En það er alveg ljóst að þau hafa áttað sig á því að þau voru ekki búin að standa sína plikt gagnvart þinginu. Þess vegna hafa þau setið hér, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, og beðið eftir því að þetta kæmi úr ljósritunarvélinni til að þau gætu haldið sinn blaðamannafund. En þetta er mjög kostuleg uppákoma sem við verðum hér vitni að.

Varðandi ræðu hv. þingmanns þá hefur hann ekki svarað því í rauninni hvernig í ósköpunum standi á því fyrst hann er svona heittrúaður varðandi Evrópusambandið, að vera á móti því, að hann bakkar upp þessa ríkisstjórn algjörlega leynt og ljóst um að þetta Evrópumál fari í gegn með öllum ráðum þó hann viti að hans skoðanir verði undir. Þetta er mjög (Forseti hringir.) merkilegt.