137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór fyrir að vekja máls á Evrópusambandinu og þjóðaratkvæðagreiðslu þar um. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður og Sjálfstæðisflokkurinn í heild sinni sé orðinn svona áhugasamur um þjóðaratkvæðagreiðslur og að færa valdið til þjóðarinnar með þessum hætti. (Gripið fram í.)

Varðandi þetta með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu veit hv. þingmaður að til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla geti verið bindandi þarf að festa það í stjórnarskrá. Varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið hygg ég að gæfulegra sé að við tökum fyrst fyrir Evrópusambandsályktunina sjálfa og fellum hana, þá þurfum við ekki að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Ég treysti því að hv. þingmaður muni aðstoða mig ásamt þingheimi öllum við að slá Evrópusambandsumsókn út af borðinu. (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.)