137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að við getum gert betur, það var það sem ég vonaðist til að heyra frá þingmanninum og þess vegna vil ég leggja áherslu á að við gerum það einmitt.

Samráð við þingflokksformenn, mig langar aðeins að ræða það hér. Það getur vel verið að það hafi verið haft samráð við þingflokksformenn og þess farið á leit að við mundum gera allt hvað við gætum til þess að vinna þetta hratt og vel og ég tel að það höfum við gert. Við erum búin að mæta á marga fundi, sitja yfir þessu máli mjög vel og lengi og það er allt gott og blessað. En við í minni hlutanum höfum ekki setið þetta ferli til enda. Við getum gert betur og það hafa komið fram ábendingar, meira að segja frá Fjármálaeftirlitinu þar sem sagt var beinlínis og hreint út á fundi að við ættum að einbeita okkur að þeim þáttum sem snúa að björgunarleiðangri varðandi sparisjóðina og taka þessi mál svo heildstætt og vanda lagasetninguna. Það er það sem við förum fram á, að lagasetning verði vönduð þannig að við lendum ekki í vandamálum (Forseti hringir.) eins og við erum að lenda í einmitt um þessar mundir varðandi aðra lagasetningu sem (Forseti hringir.) farið var of hratt í.