137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að standa vörð um fullveldisrétt Íslands á hafsvæðinu í kringum landið og gæta ytri landamæra. Með öflugri öryggis- og löggæslu, eftirliti, leit og björgun ber Landhelgisgæslunni að stuðla að öryggi sjófarenda, fólksins í landinu, og verndun auðlinda með sem bestum og hagkvæmustum hætti.

Í ljósi breyttra aðstæðna í umhverfinu og þá sérstaklega á norðurslóð, verðum við að eiga öfluga landhelgisgæslu. Við búum við breytta heimsmynd, nýjar ógnir í hafinu ásamt auðlindagæslu. Það verður jafnvel til þess að þessir þættir verða mikilvægasti reksturinn í Landhelgisgæslunni til framtíðar. Það er því sérstakt fagnaðarefni að TF-Sif, ný flugvél, hafi komið til landsins í dag og óska ég landsmönnum, eins og aðrir þingmenn, til hamingju með flugvélina. Það var tilkomumikil sjón að sjá hana koma í fylgd tveggja þyrlna, fljúgandi lágflug yfir Reykjavík og lenda á Reykjavíkurflugvelli sem sýnir hvað það er nauðsynlegt fyrir landsmenn alla að hafa Reykjavíkurflugvöll innan borgarmarkanna. Á slíkum óvissutímum sem við nú lifum þar sem við í stjórnarandstöðunni berjumst á móti ríkisstjórninni upp á hvern einasta dag til að halda í fullveldi okkar sem þjóðar er koma vélarinnar sérstakt ánægjuefni.

Varnir landsins eru hluti af fullveldisrétti okkar, því skulum við ekki gleyma, og koma flugvélarinnar boðar því byltingu í eftirlits-, öryggis- og björgunarmálum, svo við tölum nú ekki um þegar Þór kemur hér á næsta ári. Þó að kaup á TF-Sif og Þór kosti um 10 milljarða — og hér kveinkar varaformaður fjárlaganefndar sér undan þeim upphæðum — eru þær upphæðir í ljósi mikilvægis þessara tækja smámunir fyrir íslensku þjóðina miðað við t.d. vexti af Icesave-láninu. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að Landhelgisgæslan lendi ekki í niðurskurði (Forseti hringir.) eins og þessi ríkisstjórn hefur boðað á öllum sviðum til þess að Landhelgisgæslan geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu.