137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir minnihlutanefndaráliti í tengslum við breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki eins og við erum ræða hér, lögum sem tengjast sparisjóðunum.

Það verður eiginlega að segjast, virðulegi forseti, ef maður ætlar að taka saman niðurstöðuna af þeirri vinnu sem hefur farið fram í nefndinni á undanförnum dögum — og ég tek fram að ég tel að nefndin hafi unnið vel og reynt að laga eins marga hluti og mögulegt er á þeim skamma tíma sem um var að ræða — að ég er nokkuð viss um að það verður mjög stutt í að við fjöllum um þetta mál aftur. Ástæðan er einfaldlega sú að við erum hér að ganga frá máli sem augljóslega mikill ágreiningur er um á milli meiri hluta og minni hluta og við í minni hlutanum teljum að við séum að gera þetta í miklum flýti.

Það er augljóst, ég er alveg á því og það kemur fram í nefndaráliti okkar, að breytingartillögur nefndarinnar eru til bóta. Við nefnum það líka alveg sérstaklega að það er augljóst á öllu að málið var unnið í miklum flýti og við náum ekki niðurstöðu í mál sem er mjög mikilvægt að gera þegar kemur að málefnum sparisjóðanna.

Í rauninni kom þetta afskaplega vel fram, ekki í framsöguræðu formanns nefndarinnar sem var alveg prýðileg þar sem hann fór ágætlega yfir hin ýmsu mál, heldur í andsvörum þegar stjórnarþingmaðurinn hv. þm. Guðbjartur Hannesson lýsti yfir áhyggjum sínum á niðurfærslu á stofnfé. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson er ekki eini maðurinn sem hefur haft áhyggjur af þessu, ég held að það megi segja að flestir umsagnaraðilar höfðu miklar vangaveltur í tengslum við þetta, mismunandi sjónarmið en þó miklar áhyggjur sama hvað mönnum finnst. Hér hefur komið fram það sjónarmið frá hæstv. viðskiptaráðherra í fyrirspurnatíma að það sé ekkert réttlæti — ef ég skil hæstv. viðskiptaráðherra rétt — í öðru en að taka niður stofnfé sparisjóðseigenda sökum þess að þeir hafi fjárfest bara eins og aðrir aðilar og verði að taka því tapi sem þar kemur upp. Alveg sama hvaða skoðun menn hafa á slíkum fullyrðingum er alveg ljóst að ekki liggur fyrir hvert sú vegferð leiðir okkur sem við erum að fara í núna.

Ef við tölum um þessi mál í heildarsamhengi, sama hvaða skoðun menn hafa á þeim, er ljóst að málefni sparisjóðanna hafa verið tilefni deilna og sömuleiðis átaka í þjóðfélaginu um mjög langa hríð. Þetta tengist ekki einungis bankahruninu. Í rauninni á vandi hinna ýmsu sparisjóða víðs vegar um landið sér miklu lengri sögu og deilur um hina ýmsu hluti og átök koma hruninu í rauninni ekki mikið við. Ég hef verið á þingi þegar menn hafa gripið til mjög róttækrar lagasetningar á miklum hraða til að gera nokkuð sem þeir töldu að væru til bjargar sparisjóðunum. Það er alveg ljóst að við tökum ekki á þeim miklu álitaefnum sem uppi hafa verið í tengslum við sparisjóðina núna ef einhver skyldi vera í vafa um það. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, sagði að hér værum við að taka heildstætt á málum, sagði sem kom mér mjög á óvart að það væri í rauninni ekki til neins fyrir nefndina að sitja yfir málinu lengur, það mundi ekkert batna við það. Þá kom strax í ljós í andsvörum við ræðu hv. þingmanns, og ekki frá stjórnarandstöðunni heldur frá stjórnarliða, að mörg ákvæði þessa frumvarps munu, verði það að lögum sem allar líkur eru á, vekja upp spurningar en ekki svara þeim.

Ég leyfi mér nú og geri eins og held ég flestir Íslendingar, kannski sérstaklega við þingmenn, að velta því fyrir mér hvað við hefðum mátt gera betur. Það er auðvitað fjölmargt en eitt er alveg klárt, þegar kemur að málaflokki eins og fjármálaumhverfinu er alveg ljóst að við megum vanda okkur betur og gaumgæfa betur þegar við vinnum að lagasetningu. Ég hélt að formaður nefndarinnar mundi bera það fyrir sig, aðspurð um hvort þetta hefði ekki verið unnið í of miklum flýti, að það væri ekki annar valkostur við þessar aðstæður. Sjónarmið formannsins kom mér mjög á óvart, sem væntanlega er sjónarmið meiri hlutans, að alveg nóg hafi verið unnið í þessu, nægum tíma eytt í það og málið mundi ekkert batna við það að fara betur yfir það. Það er kaldhæðnislegt að við umfjöllun okkar um málið fengum við upplýsingar á fundi viðskiptanefndar fyrir nokkrum klukkutímum þar sem vorum líka að fjalla um mál sem er nokkurra vikna gamalt. Þá stóð ég hér ásamt fleirum í minni hlutanum og við héldum ekkert ósvipaðar ræður og núna, við gerðum athugasemdir við það hversu hratt væri unnið og höfðum miklar áhyggjur af því að það frumvarp, þó svo að það hafi eins og flest frumvörp góðan ásetning, mundi ekki skila tilætluðum árangri. Því miður höfðum við rétt fyrir okkur. Það liggur fyrir að við erum að fjalla núna aftur um lög sem við samþykktum fyrir nokkrum dögum vegna þess að ásetningur þeirra laga sem voru keyrð í gegn á miklum hraða og vísað til þess að það væri gert til að greiða út launakröfur starfsmanna bankanna gekk ekki eftir. Að vísu var margt meira undir (Gripið fram í.) sem í rauninni eru enn stærri mál en þau og ég vona að okkur hafi lánast að ganga þannig frá því frumvarpi og þeim lögum að það muni ekki kalla á erfiðleika í nánustu framtíð. Það er ekki ljóst á þessu stigi.

Virðulegi forseti. Þess vegna er mörgum spurningum ósvarað eins og ég vísaði í áðan og við í minni hlutanum höfum verið alveg tilbúin til að vinna þessa hluti jafnhratt og mögulegt er. Röksemdir meiri hlutans hafa verið þær að það væri nauðsynlegt að ganga frá ákveðnum málum til að markmið neyðarlaganna um að koma sparisjóðunum til aðstoðar næðist. Það þyrfti að breyta sérstaklega reglum um niðurfærslu stofnfjár til að svo mætti verða. Við í minni hlutanum höfum alveg haft skilning á því en í þessu frumvarpi er miklu meira og formaður viðskiptanefndar taldi í ræðu sinni fyrr í dag að hér væri um að ræða heildstæða löggjöf um sparisjóðina. Það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að það má vera mikið lán ef það að ganga frá heildstæðri löggjöf um sparisjóðina á þessum hraða mun ekki kalla á einhverjar spurningar svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég vona sannarlega að við þurfum ekki að taka þetta mál fljótt upp aftur en ég er ansi hræddur um það.

Í það minnsta liggur alveg hreint og klárt fyrir að einu helsta og kannski stærsta einstaka álitaefni sem snýr að því hvernig við sjáum sparisjóðina í nánustu framtíð er ekki svarað. Í grófum dráttum gengur þetta út á að ríkið kemur inn með fjármagn eins og í aðrar fjármálastofnanir. Það er rétt sem kom fram hjá formanni að staða sparisjóðanna er verri núna en þegar við gengum frá reglunum í desember af mörgum ástæðum. Ætli tvö stærstu áföllin séu ekki annars vegar verra ástand á fjármálamörkuðum og hins vegar fall Sparisjóðabankans sem hafði mikil áhrif á flesta sparisjóði. Það tengist ekkert, virðulegi forseti, neinu meintu braski hjá stofnfjáreigendum eða sparisjóðunum, heldur var það sá aðili sem sparisjóðirnir treystu á. Fall hans hafði áhrif á alla þessa sparisjóði, alveg sama hvernig þeir höfðu hagað sínum málum varðandi stofnfé og stofnfjáreigendur.

Í andsvörum útilokaði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, ekki að það kæmi til þess að stofnfé yrði lækkað niður í núll. Í þessari lagasetningu gerum við ráð fyrir því og breytum lögum þannig að ríkissjóður geti verið eini eigandi sparisjóðanna.

Virðulegi forseti. Nú geta menn haft allar skoðanir á því, en hvers konar sparisjóður er það sem er að fullu í eigu ríkisins? Hugmyndin með sparisjóðunum er sú að þetta séu, ef ég hef skilið það rétt, sjálfseignarstofnanir sem eru í tengslum við viðkomandi svæði og þess vegna er þetta stofnfjáreigendafyrirkomulag væntanlega til komið. Ég er þó þeirrar skoðunar að það megi taka það til endurskoðunar og tel að við hefðum átt að eyða góðum tíma í það og gera það bæði gegnsærra og skýrara hvernig aðilar geta orðið stofnfjáreigendur í sparisjóðum. Hvað sem öðru líður getum við staðið uppi með einn eða fleiri, jafnvel kannski marga, sparisjóði sem eru hreinir ríkissparisjóðir og það eru engar áætlanir — það kom skýrt fram í nefndinni — um það hvernig ríkið ætlar að losa sig út úr því.

Nú vitum við að vandinn hefur m.a. legið í því að flestir sparisjóðirnir hafa verið litlar einingar, þess vegna hafa þeir væntanlega farið í að sameinast. Þess vegna hafa þeir kallað á það að fá að vinna saman og hefur þótt örðugt að starfa við þær aðstæður. Þegar við erum komin með þessar litlu einingar sem eru að fullu í umsjá ríkisins og þar af leiðandi í litlum tengslum við heimasvæði sín liggur alveg fyrir að við erum komin með sérstakt verkefni, leggjum það út jákvætt. Mér finnst það í rauninni sýna hvað við erum komin skammt með þessa vinnu að það kom skýrt fram að það eru engar áætlanir um það hvernig ríkið ætlar að losa sig út úr slíkri stöðu.

Virðulegi forseti. Menn komast ekkert hjá því þegar þeir fara í mál eins og þessi, ef menn hugsa málið alla leið, að við ættum að hafa lært það af undangengnum tíma að hlutirnir lagast ekkert við að fresta þeim. Það er algjörlega deginum ljósara. (Gripið fram í: Góður!) Það að ætla ekki að taka á hlutum eins og minni hlutinn tekur hér fram varðandi t.d. að skýra skilgreiningar í kringum sparisjóðina, taka fram, skoða og koma með lagaumgjörð varðandi rekstrarumhverfi, tengsl við heimasvæðin, upphæð stofnfjár, gagnsæi í reglum við stofnfjáreigendur, hverjir geta orðið stofnfjáreigendur, stjórnkerfi sparisjóðanna, atkvæði stofnfjárhlutar, samstarf sparisjóðanna og ýmsa slíka hluti — og ég fullyrði að þeir sem eru í nefndinni geta ekki svarað því hvernig þeir sjái þetta fyrir sér á næstunni vegna þess að það kom bara algjörlega skýrt fram að það eru engar slíkar áætlanir til.

Nú er ekki eins og bara ég sé að tala um þetta eða við sem erum í viðskiptanefnd og ekki í meiri hlutanum. Síðast í dag, fyrir nokkrum klukkutímum, ítrekaði Fjármálaeftirlitið þá ósk sína að viðskiptanefnd mundi taka betri tíma í að fara yfir málið. (Gripið fram í: Ha?) (ÁI: Úff, er þingmaðurinn enn í …?)

Virðulegi forseti. Hér er komin beiðni frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að ég endurtaki það sem ég er búinn að segja tvisvar, þrisvar. Ég get alveg sagt það einu sinni enn, það kom síðast fram í nefndinni í dag frá Fjármálaeftirlitinu að það teldi að viðskiptanefnd ætti að taka betri tíma í að fara yfir þetta mál.

Ég ætla að fara aðeins yfir það hvað kemur fram í umsögn Fjármálaeftirlitsins. Hér hafa menn talað um að þessir hlutir séu mjög skýrir og bara hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og flestum öðrum sem þetta mál skoða finnst það ekki. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins segir, með leyfi forseta:

„Almennt telur Fjármálaeftirlitið nokkuð vanta upp á skýrleika nokkurra greina frumvarpsins sem geta valdið vafa í túlkun og framkvæmd.“

Síðan koma nokkurra síðna athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu.

Það segir kannski allt um það hversu skýrt þetta er að við kölluðum sérstaklega á Fjármálaeftirlitið í dag vegna þess að við ætluðum að fá það til að bíða með fresti til að við gætum unnið okkur ákveðinn tíma, þ.e. nefndin stóð í þeirri meiningu að Fjármálaeftirlitið kallaði á að þessu máli yrði flýtt, en í umfjöllun nefndarinnar kom skýrt fram að fjármálaráðuneytið hafði beðið um það.

Virðulegi forseti. Sjónarmið okkar er að það væri skynsamlegra fyrir okkur að skilgreina einungis þá þætti sem snúa að bráðaaðgerðunum, reyna að klára þá á næstu dögum og taka síðan betri tíma í það sem augljóslega á eftir að gera og mun því miður koma til kasta þingsins, vonandi seinna en ég er ansi hræddur um að það verði fyrr, sem snýr að almennu umhverfi sparisjóðanna í landinu. Við því var ekki orðið eins og menn þekkja. Þó svo að ég taki skýrt fram að við teljum að þær breytingar sem hafa verið gerðar séu til bóta breytir það ekki þeirri staðreynd að við eigum enn þá mikið verk óunnið. Hér erum við að tala um ansi mikla hagsmuni og það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar bæði fyrir fjármálakerfið í heild sinni, sem við erum að endurvekja, og ég tala nú ekki um um ákveðin svæði á landinu, að við höfum ekki gefið okkur þann tíma sem þarf til að vinna í þessum málum. Enn er von, virðulegur forseti, og það er aldrei að vita nema meiri hlutinn sjái að sér og menn hinkri aðeins.

Ég sé á nefndarmönnum í meiri hlutanum að þá dreymir um að verða við óskum okkar og svo er bara spurning hvort þeir verði settir undir járnhæl ríkisstjórnarinnar og látnir keyra þetta í gegn. Það, virðulegi forseti, er nokkuð sem við munum sjá á næstu klukkustundum, en svona án þess að vera með nokkurt létt hjal í þessu alvörumáli hvet ég í fullri alvöru meiri hlutann, sérstaklega í ljósi þess að við erum að taka á máli nákvæmlega vegna þess að menn gáfu sér ekki þann tíma sem þurfti til að gaumgæfa það nógu vel. Við erum komin með erindi sem við vorum með fyrir nokkrum vikum og byrjuðum á því í morgun að fara aftur yfir mál sem við kláruðum. Meiri hlutinn taldi sig vera að klára hann til lengri tíma en nokkurra vikna. Við vorum bara að gera það í morgun.

Virðulegi forseti. Þó að menn geti haft mismunandi sjónarmið, og svo sannarlega eru mismunandi sjónarmið í minni hlutanum þegar kemur að sparisjóðunum eins og hjá flestum, held ég að við séum í grunninn sammála um það, eða um 90%, hvað þessum málum kemur. Ég hvet meiri hlutann til að hugsa einu sinni enn hvort ekki væri skynsamlegra að fara að ráðum okkar í minni hlutanum, klára bara það mál sem snýr að hreinum og klárum aðgerðum til að aðstoða sparisjóðina en að við gefum okkur betri tíma í það sem snýr að heildarumgjörð sparisjóðanna.

Ef við gerum það ekki, virðulegi forseti, er ansi mikil hætta á því að við þurfum að vinna þetta hratt aftur. Ég fullyrði að hv. þingmenn í viðskiptanefnd eru ekki verkfælnir, þvert á móti tilbúnir til að gera það. Það er hins vegar ansi dýrt, virðulegi forseti, ef okkur tekst ekki vel til með sparisjóðina af mörgum ástæðum og ekki bara fyrir þær stofnanir, heldur sömuleiðis fyrir fjármálakerfið í heild og sérstaklega ákveðin svæði á landinu.