137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála, enn og aftur, þessari skilgreiningu um muninn á því að gerast hluthafi eða stofnfjáreigandi og ábyrgðarmaður í sparisjóði. Hlutafélagaformið er auðvitað til þess ætlað að það skili tilteknum arði eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson rakti í kvöld. Það er auðvitað munur á þessum tveimur rekstrarformum. Það sem hér skiptir hins vegar máli er hver er ábyrgðin. Og á ábyrgð hluthafans annars vegar sem er bundin við hlutafé og á ábyrgð stofnfjáreigandans hins vegar sem er bundin við stofnfé er að þessu leytinu til enginn munur. Það var þess vegna sem ég spurði hv. þingmann um túlkun á 63. gr. þar sem hún segir beinum orðum, að stofnfjáreigendur beri ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs sem nemur stofnfé þeirra. Þannig er það bara.

Ég verð að segja að ég ber mikla virðingu fyrir baráttugleði hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem vill veg samvinnuhugsjónarinnar og sparisjóðahugsjónarinnar sem mestan en ég hlýt að segja að það verður ekki gert með lögum. Það þarf tiltekna siðvæðingu. Þetta er félagslegt erindi, hv. þingmaður. Það er ekki hægt að skikka siðbót með lögum.