137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

stýrivextir.

[10:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í morgun tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvörðun um að halda stýrivöxtum óbreyttum, 12%. Nú er það svo, frú forseti, að stýrivextir virka á svokölluð veðlán sem einu sinni hétu endurhverf lán og í þeim flokki voru 140 milljarðar um áramót en eru einungis um 8 milljarðar núna þannig að þessir stýrivextir eru hættir að virka yfirleitt. Það sem virkar í dag eru innlánsreikningar Seðlabankans sem eru með 9,5% vöxtum og þar inni eru núna yfir 100 milljarðar. Millibankavextir eru um 9% og til eins árs eru þeir meira að segja 6%. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvað það eigi að þýða að Seðlabankinn, þar sem hún skipaði alfarið bæði bankastjóra og peningastefnunefndina, haldi uppi stýrivöxtum sem í rauninni hafa ekkert að segja, sem stýra engu, hvort þetta sé bara eitthvert merki til útlanda eða hvað svona leikrit eigi eiginlega að þýða og hvers vegna menn horfist ekki í augu við veruleikann. Það er mikill sparnaður í bönkunum, gífurlegur sparnaður og hann fær ekki útrás vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við það að koma bönkunum í gang. Hún talar alltaf um hvað þetta sé erfitt og hvað þetta sé þungbært o.s.frv., hún talar um vandamál en þetta er verkefni, frú forseti, sem hæstv. ríkisstjórn á að vinna að og klára.