137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hlýtur að eiga að skilja orð hv. þingmanns þannig að hann telji að Framsóknarflokkurinn sé hins vegar í góðum færum til að stjórna landinu. (BJJ: Já.) Já. Ekki tókst það vel hjá Framsóknarflokknum á árunum 2002–2007. Ætli Framsóknarflokkurinn sé alveg saklaus í þessu máli? (BJJ: Hver er að segja það?) Ætli hann beri ekki líka einhverja ábyrgð og við öll? Þetta er dálítið undarlegur málflutningur hjá hv. þingmanni sem þá var þegar kominn hér á vettvang, þó að sum flokkssystkini hans geti hegðað sér eins og hreinir og syndlausir englar þá á það ekki endilega við um alla sem voru sjálfir á vettvangi á þessum tíma, þar áður aðstoðarmenn ráðherra í Framsóknarflokknum, sem sváfu í viðskiptaráðuneytinu, eins og kunnugt er á árunum 2002–2007.

Varðandi greiðslubyrðina og greiðslumatið af þessu þá er hægt að setja það í ýmislegt samhengi hvort sem við setjum það í hlutfall af vergri landsframleiðslu eða hlutfall af áætluðum þjóðartekjum. Eitt er ljóst og það er að tvennt (Forseti hringir.) þurfum við til að ráða við þetta. Umtalsverðan afgang á viðskiptum við útlönd og jákvæða afkomu ríkissjóðs.