137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar fyrst til að spyrja hæstv. ráðherra: Þegar ákvörðun var tekin um að heimila hæstv. fjármálaráðherra að rita undir samninginn var sú ákvörðun tekin í þingflokki hans að veita þetta umboð til ráðherra og síðan í ríkisstjórn og svo skrifar hæstv. fjármálaráðherra undir þessi ósköp og er þá búinn að búa til nýja stöðu fyrir íslenska þjóð. Vissi hæstv. félagsmálaráðherra um samninginn, allar afleiðingar hans og var hann búinn að kynna sér öll fylgiskjöl? Var hann búinn að kynna sér út í hörgul samninginn sjálfan? Var hann búinn að lesa samninginn og fá á honum fullan skilning? Þetta er fyrsta spurning.

Önnur spurning: Hæstv. ráðherra heldur því hérna fram að okkur beri skylda til að greiða þetta. Hefur hæstv. ráðherra ekki lesið tilskipunina? Þar stendur að komið skuli upp innlánstryggingarkerfi sem innlánsstofnanir greiði til og eigi að standa undir því ef innlán bregðast. Það er innlánsstofnanirnar sjálfar (Forseti hringir.) sem eiga að greiða en ekki skattgreiðendur.