137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er einmitt að lýsa því sem brást í tilskipunum Evrópusambandsins, þessa fyrirheitna lands hæstv. ráðherra. Það brást nefnilega að gera ráð fyrir því ef það yrði hrun. Það var ekkert gert ráð fyrir því þannig að innlánstryggingarsjóðurinn er bara galtómur. Hann getur borgað 3% af innlánunum. Það eru öll ósköpin. Þessi tilskipun Evrópusambandsins brást og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ber þá ekki Evrópusambandið sem slíkt ábyrgð á því þegar svona bregst sem við tökum yfir?

Svo vil ég minna á að við vorum að sjálfsögðu neydd til þess að taka þetta yfir af vinum hans í Evrópusambandinu, hinum miklu vinum hans, sem ég kalla svokallaða vini. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stóð líka að því að kúga Íslendinga, ríkisstjórnina og hv. þingmann. En það þurfti nú ekki mikið til að kúga hv. þingmann því að hann er búinn að vera innilega sammála gagnaðilum okkar í því að við áttum að borga þetta alla tíð.