137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki svo að mig vanti gögn um stærðargráðu vandans þó ég þiggi auðvitað réttar og hlutlægar upplýsingar hvaðan sem þær koma. Það líður varla sá dagur að ég fái ekki einhver gögn inn á mitt borð um það sem við er að eiga í þessum efnum þannig að ég held að ég sé alveg sæmilega haldinn hvað varðar það að hafa efnivið til að átta mig á stöðu mála eftir því sem þeir hlutir eru að skýrast og það eru þeir að gera. Ég geri ráð fyrir meðal annars að hv. þingmenn hafi tekið eftir, því miður, heldur döprum fréttum um í hvað stefni með heildar erlenda skuldabyrði þjóðarbúsins.

Ríki og sveitarfélög ætla sér að stórauka sitt samstarf á sviði áætlanagerðar og efnahagsmála. Það hefði mátt betur gera í þeim efnum fyrr. En nú sjá menn að við þetta verður að glíma sem eitt stórt sameiginlegt viðfangsefni. Þessir hagsmunir skarast og liggja víða saman. Aðgerðir hjá öðru stjórnsýslustiginu hafa áhrif á hitt og svo framvegis auk þess sem það liggur í hlutarins eðli að við aðstæður eins og þær sem núna eru uppi þá verða menn að stilla saman strengina í þessum efnum. Það er heildarmyndin, það er heildarstaðan, það er það hvernig okkur vegnar sameiginlega og í heild sem öllu máli skiptir þannig að stjórnsýslustigin verða að styðja hvert annað og vinna saman. Inni í þeim stöðugleikasáttmála sem nú hefur verið gerður — að honum standa sveitarfélögin — og í honum eru meðal annars ákvæði um þetta, að ríki og sveitarfélög ætla nú að auka sitt samstarf á ýmsum sviðum sem tengjast afkomu, tekjum, skuldamálum, hagræðingaraðgerðum og öðru slíku.