137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað getum við alltaf óskað okkur að veruleikinn væri einhvern veginn öðruvísi en hann er. En staðreyndin er sú að því hefur margoft verið lýst yfir — bréflega, munnlega, í fréttatilkynningum, á fundum — að Ísland fallist á að borga lágmarksinnstæðutrygginguna, það er bara þannig, það liggur fyrir ítrekað og aftur og er skjalfest.

Það er sömuleiðis búið að viðurkenna þetta sem staðreynd inni í samskiptum við aðra aðila undir hverjum við eigum mikið. Þetta er allt veruleikinn. Þá er kannski eftir þessi spurning — já, og mér heyrist reyndar líka að umræðan hafi almennt þroskast að því leyti að við eigum ekki undankomu undan málinu — um það hversu hagstæð kjör og skilmála við getum þá vænst að fá út úr þeirri þröngu stöðu sem við erum í. Þá verð ég að segja það sem mitt mat að ég sé fátt sem bendir til þess að við ættum von á betri kjörum eða hagstæðari frágangi á málinu en þrátt fyrir allt tókst að landa með þessum samningi, sem er til langs tíma, sem er með löngu afborgunarleysi, sem er með lágum vöxtum.

Hv. þingmaður ætti að skoða hvað mörg önnur lönd þurfa að taka á sig í vaxtakjörum núna, sem er til muna óhagstæðara en það sem Ísland er að fá. Vaxtaálagið á lánum frændþjóða okkar á hinum Norðurlöndunum eru 275 punktar. Hollendingar eru með lántökukostnað sem gerir það að verkum að þegar upp er staðið mega þeir kallast góðir, að þeir telja sjálfir, að sleppa frá málinu án þess að tapa á því, þannig er nú það. Ungverjar eru að fá á sig upp undir 10% vexti, Írar 6,7%. Norðurlandalánin og lánskjörin þar, umreiknuð yfir í fasta vexti til tólf ára, eru meira en heilu prósentustigi hærri en þetta.

Þegar upp er staðið held ég að því verði ekki á móti mælt að að þessu leyti a.m.k. er niðurstaðan hagstæð (Forseti hringir.) enda segja viðsemjendur okkar: Með þessu erum við að taka tillit (Forseti hringir.) til stöðu Íslands, samanber hin sameiginlegu viðmið.