137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er aðferð út af fyrir sig til að stappa stálinu í þjóðina að hampa upplýsingum um að 37% líkur, eða hvað það nú er, séu á því að landið komist í þrot, líkur byggðar á einni spá utan úr heimi sem, það ég best veit, byggir á því að taka áhættuálagið á Ísland eins og það er reiknað einhvers staðar í dag, fullkomlega óvirkt og ómarktækt þar sem Ísland er alls ekki á lánamarkaði, er ekki að taka lán og flestir viðurkenna að er nánast út í loftið, og nota inn í líkindareikning af þessu tagi.

Ég held að við eigum aðeins að halda ró okkar og byggja umræður hér og mat á stöðunni á staðreyndum og bestu fáanlegum upplýsingum og því hvernig myndin um heildarstöðu bæði ríkissjóðs og þjóðarbúsins er smátt og smátt að skýrast. Það er alveg hárrétt að á því er mikil þörf að við reynum að kortleggja það eins vel og við getum og draga upp sviðsmyndina til framtíðar hvernig þessar skuldir verði viðráðanlegar og hvað þurfi til. Hvaða aðstæður þurfum við að skapa til að þetta verði allt saman viðráðanlegt á komandi árum? Það er mikilvægt verkefni. En það gerir engum greiða að elta einhverjar lausafréttir af þessu tagi þar sem slegið er upp hlutum um Ísland sem ég tel að sem betur fer séu ekki innstæður fyrir. Ég tel ekki ástæðu til að hafa uppi málflutning um það hér og nú að Ísland sé að komast í þrot.

Síðan ættu þá hv. þingmenn og þeir sem vilja ræða málin á þeim nótum, hvort sem það er til að stappa stálinu í þjóðina eða af einhverjum öðrum ástæðum, líka að hugleiða söguna. Hefur það verið venjan að þjóðir sem hafa komist í vandræði með að ráða við greiðslur af sínum erlendum lánum hafi verið gerðar upp? Þekkja menn einhver dæmi slíks úr sögunni að almennt hafi verið farið í aðför að eignum ríkja eða auðlindir þeirra gerðar upptækar? Svarið er nei. Í Parísarklúbbnum og allri sögu hans þekki ég tæpast nokkurt dæmi um slíkt. Þess eru örfá dæmi að gengið hafi verið erlendis að einhverjum afmörkuðum eignum eða reynt að fara í aðför að þeim, en það hefur ekki verið farið inn í sjálfstæð þjóðríki (Forseti hringir.) þótt þau hafi komist í greiðsluvandræði og gengið að eignum þeirra innan lands eða auðlindum. Það er ekki þannig.