137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni greinargott svar. Eitt mundi ég þó vilja spyrja hana nánar út í og það varðar atriði sem fram kom í ræðu hv. þingmanns þar sem gagnrýnd voru vinnubrögð Íslendinga í þessu máli. Ég hefði áhuga á því að heyra mat hv. þingmanns á því hvort hún telur rétt að fjármálaráðherra upplýsi um kostnað við alla þessa samningsgerð og atburðarás undangenginna mánaða. Hversu mikill kostnaður hefur farið í þessa vinnu sem skilar þessari niðurstöðu? Hleypur hann á milljónum eða tugum milljóna króna? Mundi hv. þm. Birgitta Jónsdóttir taka undir það með mér að skora á fjármálaráðherra að veita svör við því?