137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur orðið uppvís að því núna og mörgum sinnum á síðustu dögum að vera ómerkur orða sinna þegar hann talar um það að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi ekki stundað neinar skylmingar í málflutningi sínum. Þeir hvöttu beinlínis til byltingar í samfélaginu. Og á hvaða forsendum var sú byltingarkrafa gerð? Hún var á þeirri forsendu að íslenskur almenningur ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna. Síðan er það hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem talar fyrir því að það eigi að gera og þetta er ekki eina málið þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur snúið stefnu sinni á hvolf. En ég spyr hæstv. ráðherra, af því að við höfum verið að kalla eftir heildarsamhengi hlutanna og hann hefur ekki getað svarað því: Veit hæstv. ráðherra virkilega ekki hverjar erlendar skuldir hins opinbera eru? Er það virkilega svo að hæstv. fjármálaráðherra sem leggur þetta mál fram viti það ekki, hafi ekki þá heildarmynd hverjar skuldirnar eru? Er það eitthvert leyndarmál eða veit hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) það hreinlega ekki? Það er mikið áhyggjuefni ef svo er.