137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar vantaði kannski inn í frásögn hans að fundurinn sem boðaður var í utanríkismálanefnd síðar um morguninn var boðaður meira en hálfri klukkustund eftir að þingfundi var frestað. Eitthvað var þetta því mikið á reiki hvernig þessi fundahöld áttu öll að fara fram og er það náttúrlega til vitnis um þá stjórnun sem hér á sér stað og ég ætla ekki að kenna hæstv. forseta um sérstaklega. Við vitum að það stafar af því óeirðaástandi sem er innan ríkisstjórnarinnar þessa dagana og hæstv. forseti er auðvitað í vanda staddur að þessu leyti en ætti þó aðeins að reyna að standa í lappirnar þegar þrýstingur kemur frá stjórnarflokkunum um þessi mál.

Ég vil vekja athygli á því að við erum að hefja óundirbúnar fyrirspurnir og hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra eru viðstaddir. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hæstv. forseta hvernig á því standi, enda eru þetta þeir tveir ráðherrar sem ég hygg að þingmenn (Forseti hringir.) hafi flestar spurningar til á þessu stigi máls.