137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

bresk skýrsla um Icesave.

[12:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað vandamál við þetta mál, sérstaklega að maður fær ekki varist þeirri hugsun að það séu einhver fleiri skjöl sem haldið hefur verið eftir á sömu forsendum en látum það liggja á milli hluta.

Hvað er hæstv. ráðherra að segja hér nú? Hann segir: Það var uppi lagaleg óvissa í málinu. Það tókust á tvenn sjónarmið, sjónarmið Hollendinga og Breta, um að við hefðum lagalegu skuldbindinguna og sjónarmið Íslendinga, sjónarmið okkar, sjónarmið sem styrkja málstað Íslands í málinu og um þetta var lagaleg óvissa. Jafnvel þó að þetta lögfræðiálit hafi verið hliðhollt málstað Íslendinga þá voru þarna lögfræðiálit sem voru hliðholl málstað Breta og Hollendinga og við ákváðum að fara eftir þeim. Það er það sem hæstv. ráðherra er að segja. Ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun í þeirri lagalegu óvissu sem var uppi að fylgja þeim álitum sem studdu málstað viðsemjenda okkar í málinu. Það er það sem efnislega er verið að segja. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur.