137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum stödd í 3. umr. um frumvarp um sparisjóðina. Ég verð að taka undir orð annarra þingmanna sem talað hafa á undan mér að þetta mál hefur alls ekki fengið næga athygli. Segja má nánast að við séum að lauma þessu í gegn í skugganum af stóru málunum, Icesave og Evrópusambandinu.

Ég óskaði sjálf eftir því í lok 2. umr. um málið að það færi aftur til nefndar. Ástæðan fyrir því var að ég vildi gjarnan ræða tvo þætti sem komu fram í 2. umr., annars vegar ábendingar frá þingmönnum í stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihlutanum um hvort hugsanlegt væri að setja einhvers konar gólf á niðurfærslu á stofnfé, sú hugmynd kom m.a. fram í orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar. Síðan vil ég ræða mína eigin tillögu um hvernig hægt sé að tryggja aðkomu heimamanna að stjórn sparisjóðanna þar sem við sjáum hugsanlega fram á það í einhverjum tilvikum að ríkið verði eini stofnfjáreigandinn í sparisjóði. Ég lagði þá fram tillögu sem var að vísu felld við 2. umr. um hvernig stjórn sparisjóðanna yrði skipuð. Þar sætu fulltrúar stofnfjáreigenda, hlutaðeigandi sveitarstjórna eða héraðsnefnda og innstæðueigendur. Og í stjórn sparisjóðs með fleiri en 15 starfsmenn skyldu starfsmenn kjósa einn fulltrúa í stjórn sjóðsins sem ég taldi að ætti einmitt að hugnast Vinstri grænum og jafnaðarmönnum mjög vel.

Það kom líka fram í orðum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, sem situr með mér í viðskiptanefnd, að við í minni hluta nefndarinnar erum sammála um að okkur finnst skorta mjög skýrari framtíðarsýn á tilveru sparisjóðanna í þessu frumvarpi: Hvernig sjáum við fyrir okkur sparisjóðakerfið til framtíðar? Það var líka algjör skortur á hugmyndum eða fyrirætlunum um hvernig ríkið ætti að geta komið sér út úr sparisjóðakerfinu og menn virtust jafnvel vera til búnir að sætta sig við að ríkið yrði þarna inni um ókomna tíð. Við settumst því niður á milli 2. og 3. umr. og ræddum þessi atriði. Ég verð að segja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formanni viðskiptanefndar, til hróss að hún kallaði ýmsa gesti á fund og við ræddum þetta mál fram og til baka. En því miður virtust sjónarmið embættismanna í viðskiptaráðuneytinu og þeirra sem skrifuðu frumvarpið algjörlega fá að ráða afstöðu meiri hlutans í nefndinni þrátt fyrir að ég hafi þá trú að innst inni sé jafnvel formaðurinn ekki sammála mörgum af þeim ábendingum sem fram komu hjá þessum aðilum sem m.a. sömdu frumvarpið. Þar var talað um að þetta væri einhvers konar „snikkerí“ og sveitarfélögin væru hugsanlega einhvers konar „free-riders“ eða „sníkjudýr“ á sparisjóðakerfinu. Svo klykkti viðkomandi út með því að segja að hugmyndafræðin á bak við sparisjóðina væri einhvers konar „hallelúja-dæmi“. En ég er alveg fullviss um að það eru ekki orð sem hv. formaður er tilbúin að taka undir varðandi hugmyndafræðina og hugsunina á bak við sparisjóðina.

Eitt af því sem rætt var innan nefndarinnar var að við endurskoðun laga um fjármálafyrirtæki nú í haust væri ætlunin að endurskoða einmitt þennan kafla. Þar mundi framtíðarsýnin varðandi sparisjóðina koma skýrar fram. Ég hef hins vegar mjög miklar áhyggjur ef það verða þessi viðhorf sem munu ríkja við endurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki og endurskoðun á þeim kafla sem varðar sparisjóðina. Þegar ég var að ræða við einn kunningja minn um sparisjóðina og áhyggjur mínar af framtíð þeirra lét hann þau orð falla — og þessi einstaklingur hafði einmitt líka átt heilmikil samskipti við viðskiptaráðuneytið varðandi sparisjóðina — að það virtist vera eins og menn þar innan dyra, þ.e. í ráðuneytinu, sem vinna að þessari endurskoðun þekktu hreinlega ekki þá samkennd og þá samhyggju og samvinnu sem einkennt hafa þá sem staðið hafa að sparisjóðakerfinu — það á sérstaklega við úti á landi. Að þeir þekktu ekki þá miklu umhyggju fyrir samfélaginu sem ég tel að sparisjóðahugsunin grundvallist á. Þar hafa menn ekki alltaf fyrst og fremst hugsað um sinn eigin vasa og hversu mikið þeir sjálfir geta grætt heldur hafa þeir oft verið tilbúnir að leggja mjög mikið undir til þess að tryggja velferð samfélagsins og jafnvel á sinn eigin kostnað. Ég hefði einmitt haldið að í ljósi þess ástands sem ekki bara við hér á Íslandi erum stödd í, heldur líka fólk úti um allan heim þar sem við virðumst hafa tapað okkur algjörlega í dansinum í kringum gullkálfinn, að það væri einmitt svo mikilvægt að þegar við erum að fara að búa til nýjan ramma, nýja framtíðarsýn, nýtt fjármálakerfi, að við reynum eftir bestu getu að setja þessa hugsun inn í lagaumhverfið, inn í löggjöfina sjálfa.

Þegar ég impraði á þessu milli 2. og 3. umr. var mér m.a. bent á að sú vinna sem væri í gangi núna varðandi endurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki byggði mjög mikið á skýrslu sem gefin var út og kölluð er Larosière-skýrslan. Hún var rædd mjög mikið m.a. í umræðu um lög um Seðlabankann og vakti heilmikla athygli þá, ekki ósvipað þeirri athygli sem ákveðinn þingmaður hefur fengið nú í morgun og í gær. En þegar ég fór að kynna mér málið aðeins betur sýndist mér að þeir punktar sem bent var á að væru lykilatriði í þeirri skýrslu virtust frekar varða stærri fjármálafyrirtæki og eftirlit með fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka. Þeir virtust líka hafa miklar áhyggjur af verðbréfaviðskiptum og fjárfestingastarfsemi almennt, þar er talað um afleiðuviðskipti og annað. Fulltrúar Sambands íslenskra sparisjóða bentu á fleira, t.d. að það virðist vera aukin jákvæðni innan Evrópusambandsins gagnvart hugmyndafræði sparisjóðanna. Menn hafa þá horft til þess að í mörgum löndum virðast sparisjóðirnir hafa komið mun betur út úr þessum áföllum en stærri fjármálafyrirtæki.

Ég vona svo sannarlega að þegar þessi vinna heldur áfram verði reynt að koma þeim ábendingum á framfæri við þá sem eru að endurskoða löggjöf um fjármálafyrirtæki og jafnvel endurskoðun almennt á öllu rekstrarumhverfi fyrirtækja, að horfa meira til hugmyndafræðinnar um samkenndina og samhyggjuna og hvaða hlutverki fyrirtæki eiga að gegna í samfélaginu. Að sá möguleiki verði að gera meiri samfélagslegar kröfur til fyrirtækja en bara að græða peninga.

Þetta voru helstu athugasemdir mínar varðandi þetta mál og ég hef svo sem áður gert grein fyrir því í ræðum mínum af hverju ég er mjög ósátt við 7. gr. í frumvarpinu. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að ekki skyldi vera hægt að skoða hvernig væri hægt að skipa stjórn sparisjóðanna. Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum skoðað mun betur löggjöf annarra landa en ég ætla hins vegar að leyfa mér að treysta því sem um hefur verið rætt í nefndinni að það verði gert núna í haust. Hv. formaður Álfheiður Ingadóttir hefur sagt það og þegar hún talar um ákveðna hluti ætlar hún sér að standa við þá, alla vega eins og ég þekki hana. Ég vona því svo sannarlega að svo verði í þessu máli þannig að við fáum jafnvel tækifæri til þess að fylgja eftir, eins og ég hef ítrekað bent á, samþykktum landsfundar Vinstri grænna, alla vega í þessu máli.