137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri hugsjón um samvinnu, samhygð og samábyrgð sem hv. þm. Eygló Harðardóttir er óþreytandi að tala fyrir hér í þessum sölum. Ég hef lýst því áður að ég tel að það sé kannski frekar spurningin um hugarfar, um siðvæðingu, en lagaboð og tel að það verði ekki mælt fyrir um það í lögum að menn eigi að haga sér með tilteknum hætti.

Ég kom hingað upp í andsvar við hv. þingmann vegna orða hennar sem hún sagði tilvitnuð frá fundi viðskiptanefndar og hafði eftir tilteknum gestum nefndarinnar um að sveitarfélögin væru eins konar sníkjudýr á sparisjóðunum. Ég vil mótmæla þessum orðum, ég kannast ekki við að þessum skoðunum hafi verið hreyft á fundum nefndarinnar, hvorki af gestum né nefndarmönnum.