137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég og hv. þm. Ragnheiður Elín séum hjartanlega sammála um hvernig við mundum vilja sjá eigendastefnuna og hver tengsl hennar eru við hvert og einstakt fjármálafyrirtæki og ég ætla ekki að orðlengja það.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála þegar hún ýjar að því að forsendan fyrir því að við getum afgreitt sparisjóðafrumvarpið eða að við getum afgreitt bankasýslumálið sé við fáum að sjá eigendastefnuna. Formaður nefndarinnar hefur lýst því yfir að hann hafi hug á að taka málið aftur á milli 2. og 3. umr. og þá getum við væntanlega séð eigendastefnuna. Ég hlakka líka til að sjá eigendastefnuna, ég tel að hún sé mjög mikilvæg til þess að við getum gætt að samkeppnissjónarmiðum.

Lagarammann setjum við með þeim frumvörpum, verði þau að lögum, sem við erum að takast á við núna um sparisjóði og bankasýslu en eigendastefnan er stefnumótunarplagg og mér finnst hún þess vegna ekki lúta sömu lögmálum. Ég legg á það mikla áherslu og það er mín hjartnæma skoðun að hvert fjármálafyrirtæki um sig verður svo að fá góðan ramma til að starfa innan til þess að það hafi frjálsræði til þess að móta sína eigin stefnu til þess að gæta að samkeppni á markaði. Fyrr get ég ekki skrifað undir það plagg og ég hlakka til að sjá það rétt eins og hv. þingmaður.