137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera mjög góð umræða í dag og ég held að hún sýni hvað þetta mál skiptir miklu fyrir þjóðfélagið. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með hinum ýmsu sjónarhornum sem þingmenn hafa komið með inn í umræðuna. Það virðist vera að allir þingmenn eigi það sameiginlegt að hafa haft einhver samskipti við og upplifun af sparisjóðakerfinu í landinu og skyldi engan undra vegna þess að það var þétt net sem skipti sérstaklega miklu máli fyrir svæði á landsbyggðinni.

Komið hafa fram sjónarmið frá landsbyggðarþingmönnum um að það sé tímaskekkja að hafa sparisjóði á höfuðborgarsvæðinu. Um það skal ekki fjölyrt en hins vegar held ég að sterkustu einstöku rökin fyrir sparisjóðunum eins og þeir hafa verið lengst af í 100 ár séu tengsl þeirra við heimasvæðin. Við höfum heyrt það líka í nefndinni að þeir umsagnaraðilar sem heimsótt hafa nefndina hafa fullyrt, og það sama hefur komið fram í umræðum hjá þingmönnum, að það að hafa sparisjóð á sínu svæði geri það að verkum að hægt er að sinna þjónustu sem hinar stærri fjármálastofnanir hafa engan áhuga á að sinna. Mér er minnisstætt að ákveðnir aðilar komu á fund nefndarinnar og fullyrtu hreinlega að þeir mundu ekki fá eðlilega fyrirgreiðslu varðandi húsnæðiskaup og -lán, bílakaup eða þjónustu í kringum smáatvinnurekstur nema vegna sparisjóðanna því að þær eignir sem þeir gátu boðið sem veð þættu ekki brúklegar þegar kæmi að hinum stærri fjármálastofnunum.

Ég vek athygli á því að stjórnarliðar hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu ef undan eru skilin einstaka andsvör, en það eru allir sem til máls hafa tekið sammála um að það er engin áætlun um hver næstu skref verða. Ég held að ég fari rétt með að í andsvari hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram kom fram að honum þætti — og þarna sé ég mun á pólitík hjá stjórnarliðum, hann leiðréttir mig þá bara enda hefur hann nægan tíma til að fara í ræður, hann á báðar ræður sínar eftir — að hann vildi að ríkið færi út úr þessum rekstri. Það er ánægjulegt að það sé þó einhver í stjórnarliðinu sem er á þeirri skoðun.

En það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, og hefur margoft komið fram bæði hér í þingsal og í nefndinni að það eru engar áætlanir um það, nákvæmlega engar áætlanir. Það eru áætlanir um að ríkisvæða sparisjóðina. Ég veit ekki hvort einhver stjórnarliði kemur hér upp og gefur það í skyn eða segir það beint að það verði nú ekki gert að fullu eða hvernig sem menn kjósa að orða það, það má vel vera. En það liggur alveg fyrir að áætlanir eru til staðar, búið er að taka ákvörðun um hvernig á að nálgast þetta í viðkomandi ráðuneytum en það hefur ekki verið upplýst hér og það hefur heldur ekki verið upplýst í nefndinni. Það eitt og sér vekur tortryggni. Ég held að bæði ég og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir höfum farið yfir það í nefndinni þegar fulltrúar framkvæmdarvaldsins voru vægast sagt með mjög misvísandi upplýsingar fyrir nefndarmenn um þann þátt. Annar aðilinn sagði að að sjálfsögðu væru til reglur um þetta í ráðuneytinu á meðan hinn aðilinn vildi alls ekki kannast við það. En við skulum vona að einhverjar reglur séu til staðar um það því að ef menn ætla að nálgast þetta út frá einhverjum öðrum forsendum er það mjög erfitt.

Það liggur alveg fyrir, menn höfðu legið yfir því í marga mánuði, að settar voru reglur 18. desember, byggðar á neyðarlögunum. Það hefur síðan verið upplýst að í kjölfar þess var gerð úttekt á eignum sparisjóðanna þar sem í ljós kom að þær forsendur sem þær reglur byggðu á gætu ekki staðist og þess vegna þyrftu menn að fara í mikla niðurfærslu á stofnfé. Þess vegna þyrftu menn þessa lagabreytingu til þess að ganga í það mál en þeir upplýsa okkur þingmenn alla vega ekki um hvað gerist næst, eða eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal orðaði það svo ágætlega: Hvað svo?

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór ágætlega yfir það að við eigum í fullri alvöru hættu á að hér verði nokkuð sem er kallað á ensku zombie banks. Sú er hættan þegar við tölum um ríkissparisjóði. Hv. þm. Eygló Harðardóttir fór yfir það að ekki væri einu sinni vilji til þess að fara yfir þann þátt hvernig væri hægt að tengja stjórnarmenn frá viðkomandi svæðum inn í stjórn þessara ríkissparisjóða þó að það eitt og sér mundi kannski ekki leysa allan vanda, það væri þó einhvers konar viðleitni.

Hættan er sú, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, að ef áætlanir ná fram að ganga — sem ég vona að vísu að gerist ekki alveg, ég vonast til þess að bankarnir fari að hluta til og helst alveg til kröfuhafa og verði reknir af þeim en ekki allt saman til ríkisins. Við vitum það ekki enn þá en við fáum væntanlega að vita það einhvern tíma á næstu vikum. En ef við erum með þrjá stærstu bankana í eigu ríkissjóðs, tökum síðan yfir sparisjóðakerfið líka og ætlum svo að setja þetta allt undir Bankasýsluna, sem verður einhvers konar yfirbankaráð yfir þessu öllu saman, er það ekki glæsileg mynd. Og það er ekki eins og menn geti sagt: Ja, við byrjum bara á þessu og svo sjáum við til. Við þurfum að hugsa fyrir þessu núna.

Það er markmið í sjálfu sér að steypa þetta ekki allt í sama mót. Samkeppniseftirlitið hefur lagt ríka áherslu á það, það hefur varað sérstaklega við því að menn fari þá leið að minnka samkeppni á meðan við erum að vinna okkur úr kreppunni. Þegar menn spóla með þetta mál og önnur á miklum hraða í gegnum viðskiptanefndina þessa dagana, sem mun án vafa gera það að verkum að við þurfum að afgreiða þau með hraði, eru þeir ekki með það að leiðarljósi að minnka samkeppni meðan við vinnum okkur út úr kreppunni. Ef svo væri værum við ekki að ræða þetta mál með þeim hætti sem við gerum í dag. Ef vilji meiri hlutans væri eins og kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram værum við væntanlega að ræða um útfærslu á því hvernig ríkið ætlaði út úr þessu. Virðulegi forseti, erum við ekki sammála því?

Það er búið að ræða um þetta mál í þinginu — ég veit ekki hve margar ræður er búið að halda, við erum svo sannarlega búin að halda marga fundi í viðskiptanefnd út af þessu máli og það er alveg kristaltært að það eru engar áætlanir um það hvernig ríkið ætlar að fara út úr þessu, engar. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gaf ekki mikið fyrir að ríkið færi út úr fjármálastofnunum.

Virðulegi forseti. Komið hefur fram að hér er um mjög pólitískt mál að ræða og við vitum auðvitað hvaðan Vinstri grænir fá sína hugmyndafræði og við þekkjum sögu þess flokks. Sá flokkur hefur að vísu skipt um nafn og kennitölu eins og vinstri flokkar gera almennt af góðri ástæðu, en þetta er ekki glæsileg saga. Hún er því marki brennd að menn telja að ríkið eigi að leysa allan vanda. Og menn hafa svo sannarlega tekist á um það á undanförnum áratugum við vinstri flokkana sem hafa verið með hin ýmsu nöfn og hinar ýmsu kennitölur á hverjum tíma.

Einhvern veginn læðist að mér sú tilfinning, ég held að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafi nefnt það líka, að verið sé að læða þessu máli í gegn. Stjórnarliðar taka ekki þátt í umræðunni heldur keyra þetta mál með miklu ofbeldi í gegnum þingnefndina. Virðulegi forseti, það skal enginn kenna mér neitt um þau mál, ég hef verið beggja vegna borðsins, bæði í meiri og minni hluta í kjörnum stjórnum og þekki alveg hvernig menn vinna þessa hluti. Það var aldrei reynt að vinna málið þannig að sátt næðist um það, aldrei. Menn koma þessu máli í gegn í trausti þess að rætt verði um Icesave og ESB og þetta mál hverfi alveg í skuggann.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lýsa þeim tveim stjórnarliðum sem eru í salnum núna en ég held að það sé ekki djúpt í árinni tekið þegar ég segi að það lýsir af þeim að þeir geta ekki beðið þar til þessi umræða er búin. Þeir hafa reynt allt sem þeir geta til þess að umræðan verði sem styst. Þeir hafa svo sannarlega ekki notað ræðutíma sinn á nokkurn hátt sem er mjög athyglisvert af því að í umræðuna komu þó menn eins og Guðbjartur Hannesson sem lýsti yfir miklum áhyggjum af ákveðnum þáttum málsins og ég veit að fleiri stjórnarliðar hafa haft áhyggjur af því. Hér hefur nú verið bent á kallað var eftir viðhorfi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, sem er búinn að halda þvílíkar eldræður um sparisjóðamálið fram til þessa.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki séð þessa menn koma hér og viðra skoðanir sínar um ríkissparisjóði. (EKG: Hvar er ráðherra sveitarstjórnarmála?) Virðulegi forseti, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson bendir líka réttilega á að hæstv. samgönguráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, er ekki hér. Hvar er hann? Hér á að reyna að keyra þetta mál í gegn í trausti þess að fjölmiðlarnir muni ekki sinna því, muni ekki vekja athygli á málinu. Ef þær áhyggjur sem allir þingmenn hafa velt hér upp eru algjörlega úr lausu lofti gripnar, eru búin að vera endalaus tækifæri í nefndinni og sömuleiðis í þingsal fyrir stjórnarþingmenn að slá á þær áhyggjur. Það hefur ekki verið gert. Eina ljósglætan er brot úr andsvari frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram sem var sammála því að ríkið ætti að fara út úr sparisjóðarekstrinum. Það er eina ljóstíran. En hv. þm. Magnús Orri Schram, jafnágætur og hann er, er ekki hæstv. fjármálaráðherra. Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá að meiri hugur fylgdi máli hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram sem er varaformaður nefndarinnar og hefur öll tækifæri til að ýta eftir þessu máli að því gefnu að hann hafi áhuga á því.

Það hefur ekki verið gert, virðulegi forseti, og þess vegna stöndum við í þessum sporum í dag. Það hefur ekkert gerst í þessari umræðu í dag — hef ég fylgst vel með henni — sem slegið hefur á áhyggjur mínar hvað þetta varðar og það þýðir lítið fyrir stjórnarliða að koma og segja að menn skuli ekki hafa neinar áhyggjur. Það voru allir möguleikar fyrir stjórnarliða að sýna fram á að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu. Það var ekki gert.