137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa mig ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að öllu sé skotið inn í framtíðina hvað varðar afstöðu til einstakra málaflokka. Ég álít að okkar meginhagsmunum sé ágætlega lýst. Því er lýst ágætlega að samstarf og samráð sé haft á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Við höfum fengið gögn um það sem sýna hvernig samningaviðræður hafa gengið fyrir sig hjá öðrum þjóðum þar sem einmitt samningsafstaða viðkomandi ríkis er rædd á vettvangi þingsins áður en hún er mótuð af hálfu framkvæmdarvaldsins, fylgst er með á viðræðuferlinu og þegar samningum er lokið um hvern kafla þá kemur hún líka til umfjöllunar í þinginu áður en hún er staðfest af framkvæmdarvaldinu. Þetta tel ég að sé alveg skýrt í því sem við erum hér að leggja upp með og eigi ekki að hártoga. Ef það er með einhverjum hætti óskýrt þá held ég að menn verði að fara í saumana á nefndarálitinu og hugsanlega í (Forseti hringir.) framsöguræðu formanns því ég tel mig hafa tekið af allan vafa um það hvað þetta snertir.