137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hv. þm. Birgir Ármannsson hefur fært hér fram um stjórn þingsins og fundarstjórn. Ég hef áður í kvöld lýst þeirri skoðun minni að eðlilegt væri í ljósi þess að við munum ekki geta tekið fyrir Icesave-samningana svonefndu fyrr en undir lok næstu viku að öllum líkindum, í ljósi þess að þingið hefur mánudag, þriðjudag, miðvikudag og jafnvel lengur til að ræða ESB-málið, að við ræðum það á þeim þingtíma sem má kalla eðlilegt að fundartími sé hafður á og við keyrum þessa umræðu í kvöld ekki inn í nóttina umfram það sem nauðsynlegt er og séum ekki að funda síðan strax í framhaldinu, úr því að við höfum ákveðið að vera hér fram á kvöld, (Forseti hringir.) að funda strax í framhaldinu á laugardegi. Ég held að hægt sé að gera þetta með betri og heppilegri hætti fyrir Alþingi Íslendinga.