137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn vafi í mínum huga að við uppfyllum öll skilyrði til að verða aðili að Evrópusambandinu. Það er enginn vafi í mínum huga. En það sem þetta sýnir allt saman og það sem við erum að ræða er að Vinstri grænir munu þrátt fyrir allt gera allt til að halda völdum, allt. Við höfum hlustað á virkilega góðar ræður. Ég er ekki sammála öllu. Það er svolítið langt síðan ég hef hlustað á hugtök eins og arðrán og vitnað í Karl Marx og ýmislegt.

En þótt við sleppum þeim þætti, þá hafa hv. þingmenn Vinstri grænna virkilega verið að tala frá hjartanu. Þeir eru svo hjartanlega mikið á móti þessu og ég hugsa að það eigi við um þá alla. En þeir eru samt sem áður til í að taka þátt í leikriti þar sem nokkrir fá að greiða atkvæði á móti og vera pínuóþekkir en málið fer í gegn til að Vinstri grænir geti haldið völdum.