137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru líka skiptar skoðanir innan okkar flokks. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hafði miklar áhyggjur af því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs værum öll á móti aðild og síðan óskaði hann eftir yfirlýsingu frá þeim sem væru hlynntir aðildarviðræðum.

Það vill kannski þannig til að þingmenn hér inni eru fulltrúar þeirra sem í flokknum eru og hafa kosið, ekki bara sjálfs sín. Þar af leiðandi getur það vissulega skipast þannig að þeir sem hér inni sitja séu ekki samþykkir aðildarumsókn eða því að ganga í ESB en það þýðir ekki að þeir eigi ekki að vera fulltrúar þeirra innan hreyfingarinnar sem kjósa að slíkt sé gert.

Það var í engu beygt út af stefnu flokksins. Það er áherslumunur um málsmeðferð, og aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin tekur þessa ákvörðun er í fullu samræmi við áherslur VG í kosningabaráttunni og stefnu flokksins. Gengið byggðist á því í kosningunum að almenningur í landinu treysti okkar flokki til að leiða þjóðina í gegnum þær hörmungar sem yfir okkur hafa dunið. Þetta er grundvallaratriði. Þjóðin fellst um leið á áætlaða málsmeðferð Vinstri grænna í ESB-málinu. Það væru því alvarleg svik við yfirlýsta kosningastefnu að hlaupast (Forseti hringir.) undan þeim skyldum og afhenda boltann til þeirra afla sem komu þjóðinni í þetta fen. (Gripið fram í.) Ábyrgð felur í sér þátttöku sé þess (Gripið fram í.) kostur en ekki í því að sitja á hliðarlínunni. (Forseti hringir.) Ég segi því já. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)