137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:45]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu er ég andvíg því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Allra síst þykir mér heppilegt að fara í svo afdrifaríkt kostnaðarsamt og umdeilt ferli í þeim gríðarlegu efnahagsþrengingum sem nú steðja að og með svo klofna þjóð að baki. Ef fram kæmi að meiri hluti þjóðarinnar vildi að við sæktum um aðild, gengum inn í þetta inngönguferli þá ættum við að sjálfsögðu að ganga til aðildarviðræðna á grundvelli þess og á grundvelli þess ítarlega nefndarálits sem meiri hluti utanríkismálanefndar stendur að. En við vitum í öllum megindráttum út á hvað aðild að ESB gengur. Við þekkjum aðildarsamninga annarra ríkja og ófrávíkjanleg skilyrði ESB. Því ætti þjóðin núna strax að fá að segja sitt um leið og ég fagna því að sjálfsögðu að hún fái það einnig í lokin. En ég tel varasamt að halda þessu afdrifaríka máli til streitu án þess að skýr þjóðarvilji sé til staðar eða að afgerandi meiri hluti Alþingis sé þessu samþykkur.

Fram hefur komið í umfjöllun þingsins að svo er ekki. Ég var með fyrirvara á þessu máli frá utanríkismálanefnd, lýðræðislegan fyrirvara um að þjóðin fengi strax aðkomu. Á þessum forsendum, frú forseti, sit ég hjá í málinu.