137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[21:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður um þetta mál. Ég vil segja að sú vegferð sem var hafin þegar fulltrúar Íslands vildu falla frá þeim fyrirvörum sem voru settir við viðauka við EES-samninginn um innflutning á dýrum, á hráum kjötvörum m.a. — ég var mjög andvígur því. Ég minnist þess að í umræðunni um EES-samninginn á sínum tíma þegar þessi fyrirvari var settur, að Íslendingar innleiddu ekki þennan þátt, hvorki sem laut að innflutningi á lifandi dýrum né hráu kjöti, var það ein af þeim forsendum sem sumir þingmenn sem greiddu atkvæði með samningnum þá settu fyrir stuðningi sínum. Þetta atriði sem hér hefur verið mest rætt um og tekist á um, hvort viðhalda ætti sömu fyrirvörum, almennu innflutningsbanni á hráu kjöti, hefur alltaf verið mjög sterkt. Þess vegna kom það mjög á óvart að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ráðherrar í ríkisstjórninni skyldu ekki halda þessum fyrirvara til streitu eða leggja hann fram.

Engu að síður sýnir þetta áfram mjög sterkan vilja bæði Alþingis og fjölda félagasamtaka og einstaklinga sem vildu halda þessum hömlum. Málið hefur í tvígang komið fyrir Alþingi en ekki fengið brautargengi, ekki hvað síst af þessum ástæðum. Ég minnist þess ekki að síðan ég kom hingað hafi nokkurt mál á þingi fengið meiri umfjöllun, meiri andstöðu og háværari kröfur hafi verið um að ákvæði væri haldið úti. Þess vegna liggur vilji þings og þjóðar í þessum efnum skýrt fyrir að mínu mati. Það var afar dapurt þegar þáverandi stjórnvöld fóru þá leið að opna á þetta. Hér er á grundvelli EES-samningsins einmitt sóttur lagastuðningur fyrir því að þessu sé haldið óbreyttu.

Vegna orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar vil ég minna á að flestallt sem lýtur að sjávarútveginum og er í þessum innleiðingarlögum er þegar virkt og komið til framkvæmda. Kaupendur í Evrópu sem þetta tekur til vita vel af því. Þar er í sjálfu sér ekkert nýtt á ferðinni þó að hér sé um eina löggjöf að ræða af því að Evrópusambandið flokkar þessi mál saman undir eitt, landbúnað og sjávarútveg.

Það er enginn óskadraumur minn að flytja frumvarp um innleiðingu á Evrópusambandslögum og -reglugerðum. Það vita allir þingmenn. Hins vegar erum við á vissan hátt bundin af því sem aðrir hafa gert.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Vegna orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um hversu lagalega helt þetta væri, að hér skyldi áfram vera viðhaldið innflutningsbanni á hráu kjöti, vil ég þó vitna til 13. gr. sem kom fram í máli mínu. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra“.

Ég tel að á grundvelli m.a. þessara laga og ákvæða beri okkur samfélagsleg og þjóðfélagsleg skylda til að standa vörð um heilsu manna og dýra og þá sérstöðu sem íslensk húsdýr hafa hér á landi. Þau hafa búið við langvarandi einangrun og eru verðmæti, ekki aðeins sem húsdýr og virk framleiðsluvara heldur einnig sem mikilvæg menningarverðmæti sem okkur ber skylda til að standa vörð um. Ég vísa m.a. til ágætrar skýrslu lögfræðingsins Stefáns Más Stefánssonar og einnig Ólafs Oddgeirssonar dýralæknis sem vann fyrir Bændasamtökin hvað þetta varðaði.

Hins vegar er það þannig eins og við bjuggum við árin 2005, 2006 og 2007 að hagsmunir Íslands verða aldrei betur bornir upp en af þeim stjórnvöldum sem ráða á hverjum tíma. Komi stjórnvöld sem ekki vilja standa vörð um íslenska hagsmuni, um íslenskt búfé og um heilsu og hollustu manna og dýra á Íslandi, verður ekki við margt ráðið. Ég vil alla vega segja að ég mun leggja mitt af mörkum og treysti því að einlægur þingvilji sé til að þetta verði með þessum hætti. Ég hef fullvissu fyrir því að lagaleg rök séu sterk fyrir að svo megi verða. Í því trausti er málið flutt á þennan hátt, enda speglar það að mínu viti einlægan og eindrægan þjóðarvilja í þeim efnum.

Ég vil taka undir ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar varðandi það að auknu eftirliti fylgir aukinn kostnaður. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að fara mjög varlega varðandi allar íþyngjandi aðgerðir í þeim efnum. Við erum hins vegar aðilar að þessu regluverki hvort sem okkur líkar betur eða verr og þurfum að uppfylla lágmarksskyldur. Okkur ber þó líka að horfa til allrar hagræðingar sem hægt er að gera til að halda þeim kostnaði niðri.

Varðandi heilbrigðiseftirlitið þá er það svo að Matvælastofnun hefur yfirumsjón með heilbrigðisnefndunum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum verkefnatilflutningi á milli heilbrigðisnefndar og Matvælastofnunar en markmiðið er að gera þetta annars vegar skilvirkara og heildstæðara og hins vegar að ná fram hagræðingu.

Farið verður í gegnum þetta mál í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem og þau atriði sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson minntist á. Ég treysti því að nefndin skoði þau atriði vel.

Ég vil, frú forseti, leggja í lokin áherslu á þá skyldu okkar að standa vörð um íslenskt búfé, kýr, kindur, hross, svín, hænsn o.s.frv. Dýrin eru verðmæti í sjálfu sér en þau eru einnig mikilvæg fyrir fæðuöryggi okkar, fyrir þá matvælaframleiðslu sem við viljum hafa í landinu. Þau eru líka trygging fyrir hollri og góðri vöru, landbúnaðarvörum og matvælum þannig að þetta er ekki hvað síst neytendamál.

Ég treysti því að Alþingi afgreiði þetta mál og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki þetta mál til góðrar og efnislegrar meðferðar og að við getum sem fyrst afgreitt það sem lög frá Alþingi. Það er mjög mikilvægt í þeirri stöðu sem þessi málaflokkur er í.