137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að beina til mín þessari fyrirspurn. Frestun þessarar framkvæmdar er ein af fjórum framkvæmdum sem ég held að hafi verið tekin ríkisstjórnarákvörðun um fyrir einhverjum vikum síðan að fresta, það var þessi vegur um Laxárdalsheiði, Álftanesvegur sem var kannski stærsta framkvæmdin, Ysti Rjúkandi og færsla þjóðvegarins um Hellu sem er ekki stór framkvæmd heldur, held ég, með kostnað upp á 49 millj. ef ég man rétt. Auðvitað er einhver sparnaður sem hlýst af þessu þegar saman er komið.

Við vitum að sjálfsögðu að ástæður þessara frestana eiga sér langan aðdraganda, kannski mörg ár, ná aftur til þess tíma þegar bankahrunið var ekkert annað en óræður glampi í hægra auga Davíðs Oddssonar. Þannig er einfaldlega staðan. Við höfum sem betur fer upplifað þá tíma undanfarin tvö ár að við höfum séð einhverjar mestu framkvæmdir í sögu Íslands. Árið í fyrra var metár, aldrei jafnmikið verið framkvæmt í vegamálum og það mun ekki standa á þeim þingmanni sem hér stendur að veita aðstoð í þessum efnum. Það er gríðarlega mikilvægt að haldið sé áfram í þessum framkvæmdum vegna þess að bættar samgöngur eru virðisaukandi fyrir byggðir landsins. Þær skapa aukna atvinnu, auka bjartsýni og auka lífsgæði svo ekki sé minnst á umferðaröryggi. Ég mun taka þátt í því ásamt hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að (Forseti hringir.) koma þessum málum og fleirum á dagskrá.