137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja hv. þingmanni það að ég er í öllum meginatriðum algjörlega sammála ræðu þingmannsins en ég vildi þó koma hér í stutt andsvar til að leiðrétta það sem var kannski túlkun þingmannsins á því sem ég var að gera athugasemdir við varðandi kostnaðinn. Ég vil bara ítreka það að ég sé ekki eftir fjármunum í endurreisn bankanna og það vil ég að komi algjörlega skýrt og klárt fram.

Hins vegar sé ég alltaf eftir fjármunum sem hugsanlega er eytt að óþörfu. Það er það sem ég hef verið að vekja athygli á. Ég er ekki sannfærð um að þessi Bankasýsla nái þeim markmiðum sem við erum öll sammála um að liggi hér að baki. Ég tel að við ættum að skoða það betur hvort hægt sé að nýta það starfsfólk og þann mannafla sem fyrir er án aukakostnaðar fyrir ríkið áður en við förum að verja 70–80 milljónum sem hægt er að verja í önnur þarfari mál. Ég held að okkur beri skylda til þess sem þingmönnum að hugsa alltaf um hvernig við getum nýtt fjármuni hins opinbera sem best og það var það sem ég var að gera athugasemd við. Það er ekki að ég tími ekki að verja nauðsynlegum fjármunum í endurreisn bankanna, ég vildi að það kæmi fram.

Síðan varðandi jafnréttismálin var ég heldur ekki að segja að við eigum ekki að huga að þeim. Ég var frekar að vekja athygli á því að ekki er nóg að tala um þau heldur verður að framkvæma þau og þar held ég að ég og hv. þingmaður séum sammála.