137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[14:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt kerfi persónukjörs í sveitarstjórnarkosningum hér á landi.

Þar sem gert er ráð fyrir að kosningar til sveitarstjórna flytjist innan tíðar til dómsmálaráðuneytisins hefur orðið að samkomulagi milli mín og samgönguráðherra að ég leggi fram þetta mál en samhliða því hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis.

Grundvöllur að báðum frumvörpum var lagður í samráðshópi stjórnvalda, fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga auk utanaðkomandi sérfræðinga.

Virðulegi forseti. Hér á landi eru fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna almennt kjörnir í hlutfallskosningum þar sem kosning er bundin við framboð á listum. Kosningar til sveitarstjórna geta þó undir vissum kringumstæðum verið óbundnar þar sem allir kjósendur eru í kjöri, samanber ákvæði í sveitarstjórnarlögum þar um. Hingað til hafa listar verið boðnir fram raðaðir en kjósendur hafa síðan mátt breyta þeim. Vægi þeirra breytinga hefur þó lengst af verið lítið.

Persónukjörskerfi það sem lagt er til í frumvarpinu felur í sér grundvallarbreytingar á fyrrgreindri aðferð við kosningar til sveitarstjórna. Meginbreytingin felst í því að listar eru í aðalatriðum boðnir fram óraðaðir. Kjósandinn kýs lista eins og verið hefur en raðar síðan frambjóðendum sem eru í persónukjöri á listanum í töluröð, forgangsröð, jafnmörgum og hann kýs að raða. Með þessum hætti endurspeglar forgangsröðunin óskir kjósandans um það hverjir eiga að skipa sæti listans og í hvaða röð.

Lagt er til að við útreikning á niðurstöðum persónukjörs verði beitt aðferð sem er oft nefnd írska aðferðin eða svonefnd forgangsröðunaraðferð. Aðferðin er ekki ný af nálinni en á sér lengsta sögu á Írlandi þar sem hún hefur verið viðhöfð í nær öllum kosningum allt frá því á millistríðsárunum. Aðferðafræðin er talin sú þróaðasta sem völ er á við persónukjör enda má fullyrða að engin önnur aðferð nái með eins afgerandi hætti að endurspegla vilja kjósenda til þess hvaða frambjóðendur þess lista sem þeir kjósa skuli ná kjöri. Talning atkvæða í persónukjörinu er útfærð þannig að lesið er í vilja kjósenda til hins ýtrasta. Fái frambjóðandi sem kjósandi hefur raðað númer eitt ekki nægilegt magn atkvæða til að ná kjöri er litið á aðrar óskir kjósandans um skipan í sæti listans. Sama gerist ef kjósandinn styður mann sem nýtur mikils fylgis. Fái slíkur frambjóðandi fleiri atkvæði en hann þarf til að ná kjöri er horft til þess hvaða aðra frambjóðendur kjósandi hans vildi styðja. Kúfurinn umfram atkvæði frambjóðandans er þá færður til þeirra í réttum hlutföllum. Aftur er markmiðið að fara að vilja kjósenda eins og frekast er kostur.

Ég legg áherslu á að með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ekki með neinum hætti hróflað við listakosningu og hlutfallskosningakerfinu hér á landi. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og telst atkvæði listanum til tekna óskipt við úthlutun sæta til listans í réttu hlutfalli við úrslit kosninganna. Persónukjörið hefur því einungis áhrif á það hvaða frambjóðendur hvers lista hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi kjördæmi eða í sveitarstjórn samkvæmt niðurstöðu kosninganna.

Lagt er til að framboðslistar verði tvískiptir. Í efri hluta framboðslistans skal skipa þeim sem boðnir eru fram til persónukjörs og skal tala þeirra vera jöfn tölu fulltrúa í sveitarstjórn. Þessi hluti listans er boðinn fram óraðaður og skal yfirkjörstjórn hluta til um hvaða frambjóðandi skuli vera efstur á listanum en aðrir frambjóðendur raðast í stafrófsröð frá honum að telja þar til byrjað er aftur á stafrófinu ef þörf krefur.

Neðri hluta listans skipa frambjóðendur sem boðnir eru fram með hefðbundnum röðuðum hætti. Ekki er skylt að bjóða fram á raðaðan hluta listans en sé það gert mega nöfn á honum vera allt að því jafnmörg og á persónukjörshluta hans. Tala frambjóðenda á lista getur því verið breytileg allt frá því að svara til fjölda aðalmanna sem kjósa skal upp í tvöfalda þá tölu.

Ástæða þessarar uppskiptingar á framboðslistum í óraðaðan og raðaðan hluta er tvíþætt. Annars vegar að gera val kjósenda viðráðanlegra og hins vegar að auðvelda framboði að manna neðstu sæti lista þar sem frambjóðendur hafa getað gengið út frá því að ná ekki kjöri. Áhersla skal lögð á að þrátt fyrir þessa tvískiptingu verða aðalmenn ávallt valdir með persónukjöri. Sama má segja um valið á varamönnum nema í algjörum undantekningartilvikum.

Þar sem kjósendum er ætlað talsvert aukið hlutverk frá því sem verið hefur eru í frumvarpinu gerðar ráðstafanir til að fyrirbyggja að ýmis mistök sem kjósendur kunna að gera leiði til ógildingar atkvæðisins. Þannig hefur það ekki áhrif og leiðir ekki til ógildingar þó strikað sé yfir nafn frambjóðenda á lista enda geta útstrikanir ekki haft neina merkingu í því persónukjörsfyrirkomulagi sem hér er lagt til. Sé talnaröð rofin eða gallar eru á henni leiðir það heldur ekki til ógildingar atkvæðis en getur þó leitt til þess að einungis hluti persónulegra atkvæða telst gildur. Hafi kjósandi merkt við frambjóðanda af öðrum lista en þeim sem hann greiðir atkvæði hefur það heldur ekki áhrif á gildi atkvæðisins. Slík merking getur þó haft þau áhrif að fyrirætlun kjósandans um röðun frambjóðenda nái ekki að öllu leyti fram að ganga. Þá telst framboðslistaatkvæði gilt þótt láðst hafi að merkja við listabókstaf ef nafn eða nöfn á honum eru tölusett eða krossað við nafn enda sé ekki merkt við nöfn á fleiri en einum lista og ekki aðrir gallar á atkvæðinu.

Loks er lagt til að kjósanda sem ekki er fær um að árita kjörseðil verði heimilt að hafa með sér aðstoðarmann sem hann velur sjálfur. Er hér um nýmæli að ræða en með þessu er komið til móts við þá sem sökum fötlunar eiga erfitt með að nýta sér rétt til persónukjörs án aðstoðar. Gildir fyrirkomulagið einnig þegar viðkomandi kýs utan kjörfundar. Í þessum tilvikum þykir þó nauðsynlegt að kjörstjóri sé jafnframt viðstaddur til að tryggja að kjósandinn sé ekki beittur þrýstingi eða þvingun við kjörið.

Virðulegi forseti. Markmiðið með þessu frumvarpi er að efla lýðræði í landinu og er í þessum efnum verið að fylgja eftir þeirri þróun sem orðið hefur víðast hjá grannþjóðum okkar. Með persónukjöri eru áhrif kjósenda á það hvaða einstaklingar fá umboð til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum aukin um leið og dregið er úr áhrifum flokkanna. Má í því samhengi segja að persónukjör dragi úr þeim möguleikum flokkanna að ákveða sjálfir hvaða fulltrúar þeirra ná kjöri í kosningum. Eftir stendur að það er flokkanna að ákveða hvaða einstaklinga þeir bjóða fram til persónukjörs og hvaða aðferðum þeir beita við val á þeim hópi.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.