137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

styrking krónunnar.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fátt veldur líklega Íslendingum meiri áhyggjum núna í yfirstandandi efnahagsþrengingum en gengi krónunnar sem hefur kannski aldrei verið jafnveikt og það er nú. Ríkisstjórnin hefur gefið ýmsar ástæður fyrir því að gengið ætti að styrkjast. Það þyrfti bara að yfirstíga ákveðna hluti, fyrst átti það að reka seðlabankastjóra að styrkja gengi krónunnar. Það var ekkert smáræði sem gekk á til þess — og ekki styrktist gengið við það.

Svo gekk heil kosningabarátta út á að það eitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu mundi strax auka trúverðugleika Íslendinga stórlega og styrkja þannig gengið. Það er skemmst frá því að segja, eins og þið kannski munið eftir öll, að þetta var samþykkt — en gengi krónunnar hreyfðist ekki neitt.

Núna þurfum við nauðsynlega að taka á okkur alveg gífurlegar erlendar skuldir, skuldir í erlendri mynt, og með því á trúverðugleiki Íslendinga að aukast svo rosalega að krónan styrkist. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að gengið styrkist? Getur verið að ríkisstjórnin trúi því enn, þrátt fyrir að Íslendingar eigi að þekkja það manna best að þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig, að hægt sé að styrkja gengið til lengri tíma litið með lántöku? Var það ekki einmitt óhófleg lántaka Íslendinga, eins bankanna sérstaklega í erlendri mynt, sem varð til þess að gengi krónunnar varð óeðlilega sterkt og afleiðingin af því gat aðeins orðið ein, hrun gjaldmiðilsins? Ætlar ríkisstjórnin að halda áfram á þessari sömu braut, að reyna að styrkja gjaldmiðilinn, ekki með afgangi af gjaldeyristekjum heldur með lántökum og endurtaka þannig mistök bankanna nema núna á enn þá stærri skala? Þá yrði ekki aftur snúið. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt fram á það hvernig þessi lán frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem sögð eru svo mikilvæg eiga að breyta nokkrum sköpuðum hlut eða hvernig þau eiga að styrkja gengi gjaldmiðilsins.