137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að freista þess að svara hv. þingmanni aftur, og frekar öðrum spurningum. Í fyrsta lagi um það sem hann kallar hvaða nauður hafi rekið; það var ríkisstjórnin og afstaða hennar. Það tengist aftur svarinu sem ég ætlaði að gefa við fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þegar hún nefndi bréfið áðan. Bréf það — og það er gott að fá tækifæri til að láta það koma fram — var formleg afstaða ríkisstjórnar Íslands, samið af fjórum ráðherrum hennar og nokkrum embættismönnum, ráðuneytisstjórum tveggja ráðuneyta eða þriggja og sent út af starfsmanni viðskiptaráðuneytisins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar. Það var samið af fjórum ráðherrum þar sem orðalaginu var m.a. breytt — af því að þú talaðir um að bréfið lýsti því yfir að við mundum borga, það gerir það alls ekki — úr „ábyrgjast“ og við settum inn orðið „styðja“, „to support the Fund“, breyttum bréfinu í þá veru að ríkisstjórnin segðist mundu styðja við sjóðinn við öflun fjár en hún mundi ekki ábyrgjast greiðslurnar. Í því liggur algjör grundvallarmunur og ég er ánægður með að fá tækifæri til að láta það koma fram.

Hitt lýtur að innstæðureikningunum í Hollandi sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi. Mikill kjarni þess máls kemur fram í Morgunblaðinu í dag í frétt á bls. 11, „Óljós mörk á eftirliti landanna“, og þar segir, með leyfi forseta:

„Legið hefur fyrir að fjármálafyrirtæki sem hyggst starfrækja útibú þarf ekki sérstakt leyfi frá eftirlitsaðila heldur nægir að senda tilkynningu um að fyrirtækið hyggist nýta rétt sinn.“

Það var nákvæmlega þetta sem gerðist þegar þingmaðurinn gerði tilraun til að eigna okkur sérstaklega þessa ákvörðun bankans. Hún var tekin af honum og tilkynnt eftirlitinu okkar. Svo kemur einnig fram að gistiríkið fylgist með markaðssvæðinu og eftirliti með lausafjárstöðu þannig að eftirlitið er sameiginlegt og óljóst á milli landanna eins og kemur ágætlega fram í grein í Morgunblaðinu í dag.