137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjandanum hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir fyrirspurnina. Aðeins hvað þetta varðar held ég að það væri mjög skynsamlegt af hæstv. ráðherra að fela þeirri nefnd sem fer yfir fiskveiðistjórnarkerfið sem hann lýsti áðan að koma með hugsanlega kosti og galla þess að fara þessa leið í tillögum sínum. Ég verð að segja, frú forseti, að ríkisstjórnin er búin að gera nógu mikið af handahófskenndum aðgerðum sem skila síðan ekki tilætluðum árangri. Þetta er ekki þannig mál að menn geti ekki beðið eftir því.

Ég vil benda á það að t.d. mesta útflutningshöfn á ferskum fiski er Vestmannaeyjar. Það er kannski samgönguleysi við land sem er ástæðan fyrir því og sennilega breytist það ekki fyrr en hv. þm. Árni Johnsen er búinn að moka göngin. En aðeins til að glöggva okkur á þessu, þegar okkur vantar gjaldeyri, þá er ég með upplýsingar um verðið sem var á fiskmörkuðunum bæði erlendis og innan lands í gær. Þá var þorskur erlendis seldur á 530 kr., á 209 kr. (Forseti hringir.) hér á Íslandi. Ýsan var seld á 467 kr. erlendis, 122 kr. (Forseti hringir.) innan lands.