137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[16:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með þessa fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Hér er verið að hreyfa mikilvægu máli og við ræddum það reyndar fyrr á þessu sumri, og eins benti hv. þm. Ásbjörn Óttarsson á það, að hér er um að ræða um tíu þúsund heimili sem þurfa á niðurgreiðslum að halda eða búa við hátt rafmagnsverð. Þetta eru oftar en ekki sömu heimilin í dreifbýlinu sem þurfa að senda börn sín að heiman, m.a. til framhaldsnáms, og við þekkjum öll sorglega sögu þess hversu lítið dreifbýlisstyrkurinn hefur hækkað á undangengnum árum. Þessi sömu heimili þurfa líka að greiða há flutningsgjöld og þau hafa farið hækkandi vegna hækkunar á eldsneytisverði almennt þannig að aðstaða þessara heimila í dreifbýlinu hefur versnað til mikilla muna á undangengnum árum. Ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla til þess að fara að sýna nú í alvöru að þau vilji (Forseti hringir.) jafna lífsskilyrðin hér í landinu með því að auka niðurgreiðslur og lækka (Forseti hringir.) rafmagnskostnað þessara heimila.