137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

staða heimila og fyrirtækja.

[10:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Fyrirspurn mín snýr líka að þeim málum sem við ræðum hér, stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Ég verð að segja það fyrir mína parta að þær umræður sem áttu sér stað hér á undan flokkast undir pólitískt argaþras og það er ekki neinum til framdráttar, hvorki fyrir heimilin né fyrirtækin.

Það sem ég vildi velta hér upp eru störf þingsins í sumar. Ég stóð í þeirri von að þegar við kæmum saman hér á Alþingi í sumar mundum við fara að ræða það á efnislegum og málefnalegum grundvelli hvernig við ætlum að styðja við bakið á heimilum og fyrirtækjum í landinu, við mundum ekki lenda í þessu sem við erum að lenda í núna. Ég er ekki að gera lítið úr dagskrá þingsins eða þeim málefnum sem hafa verið tekin fyrir eða tillögum ríkisstjórnarinnar í þeim málum en betur má ef duga skal.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra í ljósi stöðu heimilanna og fyrirtækjanna: Nú hafa allar hugmyndir stjórnarandstöðunnar verið slegnar út af borðinu þar sem við höfum lagt margar góðar tillögur fram, allir stjórnarandstöðuflokkarnir, um að leiðrétta stöðu heimilanna vegna efnahagshrunsins. Það er búið að leiðrétta ákveðin atriði hjá innstæðueigendum, það er búið að leiðrétta peningamarkaðssjóðina en það á eftir að leiðrétta stöðu heimilanna og fyrirtækjanna. Ég var einlæglega að vonast til þess að við gætum farið í málefnalegar umræður hér á Alþingi um það hvernig við mundum standa að því en ekki lenda í þessum hjólförum sem við vorum í núna áðan. Það er mín einlæga von og trú vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við gefum heimilunum og fyrirtækjunum í landinu von. Ef þau hafa enga von og sjá ekki fyrir endann á erfiðleikunum munum við ekki byggja þetta upp aftur. Það er gríðarlega mikilvægt og þess vegna kalla ég eftir því að við eigum hér vitrænar umræður en ekki þetta pólitíska argaþras því að það stefnir heimilunum og fyrirtækjunum í endanlegt þrot.