137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að sjálfsögðu er þetta frumvarp í og með viðbrögð við því ástandi sem skapast hefur og til að mæta þeim réttmætu kröfum að allt sé gert af hálfu yfirvalda sem mögulegt er til þess að gæta opinberra hagsmuna og tryggja að eignir gangi ekki undan. Þær séu ekki færðar burt eða þær rýrni ekki ef þær eiga með réttu í einhverjum tilvikum að ganga upp í tjón eða sakir sem orðið hafa.

Það er borið niður hér m.a. vegna þess að skattrannsóknir eru oft, þótt flóknar og viðamiklar séu, fljótvirkari en sakarannsóknir og þess vegna getur vel atvikast svo að skatturinn hafi hafið rannsókn mála og sé kominn lengra áleiðis með sinn málatilbúnað en kannski saksóknari sem er með refsiþátt eða sakarþátt máls sem slíkan. Skattamál geta að sjálfsögðu staðið algjörlega sjálfstætt og verið til rannsóknar eingöngu hjá skattinum og skattaðilar eru mjög áhugasamir um að leggja sitt af mörkum. Það er starfshópur í gangi á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra með aðild fjármálaráðuneytisins sem hefur unnið núna um nokkurra mánaða skeið að því að skoða hvað skatturinn geti betur gert í þessum efnum og þetta er stuðningur við það starf.

Reyndar hafa tillögur af þessu tagi lengi legið fyrir hjá skattinum og það hefur verið áhugi fyrir því hjá skattyfirvöldum að hafa þessar heimildir. Það hefur ekki náð fram að ganga fram að þessu frekar en margt annað í skattaframkvæmd sem rykfallið hefur í skýrslum ofan í skúffum á ónefndum stað við Arnarhól.

Hér er sem sagt að verða breyting á eins og menn hafa m.a. séð í vetur af því að ítrekað hafa hér verið bornar fram lagabreytingar sem miða að því að styrkja stöðu skattsins.

Varðandi seinna svarið þekki ég ekki nákvæmlega hvernig þessu er háttað á hinum Norðurlöndunum (Forseti hringir.) en hitt veit ég að íslensk skattyfirvöld eru í mjög góðu samstarfi við norræn starfssystkini sín og mér þykir líklegt að þau hafi m.a. farið þangað í smiðju þegar þetta frumvarp var útbúið.