137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú þegar er heimild í nokkrum lögum til að kyrrsetja eignir. Það vantar ekki ákvæðin. Það sem menn vinna að nú er að finna hraðari leið. Vegna þeirra orða að þetta hafi verið misnotað eða verði misnotað vil ég taka fram að það er ekki misnotkun þegar lagaheimild er fyrir hendi, þá er bara verið að fara að lögum. Fyrst hv. þingmaður hefur aldrei kynnst því að fólk hafi lent í áætlunum vil ég hér og nú benda því fólki sem hefur lent í slíku, jafnvel lent í fangelsi eða misst húsnæði o.s.frv., á að hafa samband við hv. þingmann. Láta vita af örlögum sínum við núgildandi lög, hvað þá þegar búið er að herða á þeim.

Þegar áætlað er á einstakling eru það nefnilega skattskuldirnar sem gilda þangað til komið er með sönnun fyrir öðru. Rökstuddur grunur er um að hann ætli ekki að greiða ef hann telur ekki fram og þá er hægt að kyrrsetja eignir hans. Það getur verið að maðurinn sé í slíku ástandi, hann er kannski í þunglyndi eða einhverju álíka, að hann geti ekki varið sig. Ég vil benda því fólki á sem hefur lent í slíkri stöðu og af einhverjum ástæðum haft samband við mig — það hafa þrír eða fjórir haft samband við mig, kannski þeir séu þeir einu sem hafa lent í þessu og kannski voru þeir að ljúga að mér — en ég skora á fólk sem hefur lent í slíku að hafa samband við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og láta hana vita af örlögum sínum. Það er nefnilega furðu algengt að menn hafi framfylgt lögunum sem nú eru í gildi, 109. gr., ansi vasklega. Við gefum nú aukaheimildir og ég er ekkert á móti því að það sé gert. Það má líka vera að þetta sé seint fram komið en það er ekki mér að kenna að menn komi svona seint fram með þetta frumvarp.