137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við erum öll að leita að farsælli niðurstöðu en farsæl niðurstaða fæst ekki með því að reyna að telja fólki trú um að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Ég spyr því hæstv. ráðherra aftur: Hvað hefur ráðherrann fyrir sér um þann skilning sem hann vonast til þess að samningsaðilar sýni þessum breytingum á samningnum, vil ég segja, í minnsta lagi? Auðvitað er þetta ekki sami samningurinn.

Dæmisaga eftir ágætan höfund í nágrannalandi okkar segir frá keisara sem var ekki í neinum fötum. Ef þú ert með plagg sem er í grundvallaratriðum búið að breyta, hvernig færðu farsæla niðurstöðu með því að halda því fram að svo sé ekki en samt séum við að ná fram öllum okkar markmiðum? Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki eftir. Ég er ekki að reyna að vinna málinu ógagn með því að halda þessu fram. Þvert á móti held ég að það væri mjög mikið ógagn fólgið í því ef við samþykktum eitthvað sem við styðjum vegna þess að við teljum að það sé þjóðinni fyrir bestu og tryggi framtíð (Forseti hringir.) þjóðarinnar best en síðan komi í ljós að við sitjum (Forseti hringir.) enn þá uppi með samninginn sem undirritaður var af hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Þá fyrst er komið ógagn í málið.