137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er mikið verkefni sem bíður okkar að kynna málstað Íslands á erlendum vettvangi og það sem víðast, það er alveg ljóst. Það er langt í land, og við finnum það bara, að endurreisa þann trúverðugleika sem Ísland þarf á að halda til að koma efnahagslífi okkar og atvinnulífi í gang. Mér finnst þessi spurning sem hv. þingmaður kemur fram með því eðlileg.

Hv. þingmaður spyr hvort eigi að gefa þinginu frí í hálfan mánuð til að fara að ferðast og kynna málstað Íslands. Ég held að við verðum að ljúka þessu þingi og ljúka þessu máli og síðan munum við í framkvæmdarvaldinu auðvitað þiggja allt það liðsinni sem við fáum til að geta kynnt þetta mál sem best og málstað þjóðarinnar á erlendum vettvangi.