137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Það virðist sem ég og hv. þingmaður séum nokkuð sammála. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að þessu áðan í andsvari eftir að hafa hlustað á hann segja að hann teldi að hægt yrði að fá skilning gagnaðilanna á þessum fyrirvörum. Þegar ég spurði hann hvað hann hefði fyrir sér í því var það aðallega að honum þættu þetta mjög sanngjarnir fyrirvarar. Ég get alveg tekið undir það en ég óttast að það sé ekki nóg.

Því vil ég spyrja þingmanninn hvort hún viti eitthvað sem við sjálfstæðismenn vitum ekki, hvort ykkur hafi verið greint frá einhverjum samtölum við Breta og Hollendinga sem gefur tilefni til að ætla að það séu einhverjar ástæður til þess að þeir hafi á þessu skilning, að samningurinn muni halda.