137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum á Alþingi komin að endamörkum 2. umr. um Icesave, umræðu um eitt það stærsta og alvarlegasta mál sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni við 1. umr., á öðru tímabili Íslandslýðveldis. Á fyrsta tímabili hins íslenska lýðveldis, þ.e. á þjóðveldistímanum, stóðu menn oft frammi fyrir stórum málum, jafnvel stærri, og leystu þau. Engu að síður töpuðum við sjálfstæði okkar um margar aldir og það getur auðvitað gerst aftur.

Þrátt fyrir alla pólitík, ágreining um undirbúning, aðdraganda og upphaf máls snýst Icesave kannski ekki um annað en tvennt, annars vegar réttlæti og hins vegar greiðslubyrði og gjaldþol íslensku þjóðarinnar. Ég get tekið undir orð hæstv. heilbrigðisráðherra sem féllu áðan um að eins og staðan er nú snúist allt um það hvernig lyktir málsins verða.

Frú forseti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þeim tíma sem drög að pólitísku samkomulagi um Icesave-deiluna voru fyrst lögð fram um haust og snemma vetrar 2008 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, ríkisstjórnarinnar sem ríkti í aðdraganda hrunsins. Í því sambandi er rétt að minna á að Icesave-reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í apríl eða maí 2008, fjórum eða fimm mánuðum fyrir hrun, en við hrunið í október voru komnir 200.000 innlánsreikningar í Hollandi með viðurkenningu íslenskra og hollenskra fjármálayfirvalda. Aukningin í Bretlandi var fjórföldun innlánsreikninga Icesave-reikninga á sama tíma.

Eins og margoft hefur komið fram voru fjölmörg mistök gerð á þessum tíma, mistök sem eru okkur gríðarlega dýrkeypt í dag. Í meirihlutanefndaráliti fjárlaganefndar, og var ítrekað í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar í gær, kom fram að ein meginforsenda Icesave-samningsins sé siðferðileg vegna margítrekaðra yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda um að íslensk stjórnvöld mundu standa við bakið á innlánstryggingarsjóðnum og tryggja honum fé, þ.e. borga.

Frú forseti. Ég tel að í þessu sjónarmiði meiri hluta fjárlaganefndar sé afstöðu sumra þingmanna að finna í hnotskurn, þ.e. siðferðileg afstaða til yfirlýsingar samherja gerir það verkum að ekki sé hægt að horfa hlutlaust og ópólitískt á samninginn. Samninginn sem var verri og verri eftir því sem maður skoðaði hann betur. Samning sem — og það er rétt að halda því til haga, frú forseti, — ekki átti að opinbera né fylgigögn hans, aðeins kynna megindrög í upphafi sumarþings. Það hefur komið fram ítrekað í þessum umræðum og kom ítrekað fram í ræðum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar í upphafi þessa máls. Það er fyrir harðfylgi m.a. okkar framsóknarmanna og annarra stjórnarandstöðuflokka og að hluta Vinstri grænna undir forustu hæstv. heilbrigðisráðherra að fyrirvarar þeir sem fylgja meirihlutaáliti fjárlaganefndar eru fram komnir. Það er vegna harðfylgis stjórnarandstöðunnar, fjölmiðla og þjóðarinnar að samningurinn liggur nú frammi, er opinber og hefur fengið mikla skoðun og mikla gagnrýni.

Ekki er hægt að fjalla um þennan hluta málsins án þess að geta þeirra fjölmörgu aðila utan þings sem hafa lagt gríðarlega vinnu í að skoða og meta samninginn, aðila bæði innan lands sem utan. Á engan er hallað þegar nefndur er sérstaklega Indefence-hópurinn sem hefur verið óþreytandi að benda á galla, benda á hættur við samninginn og reynt að bæta stöðu Íslands með málefnalegum tillögum. Einnig verður að nefna í þessu samhengi íslenska lögmenn, Stefán Má, Lárus Blöndal, Ragnar Hall, Eirík Tómasson og reyndar mun fleiri sem hafa jafnframt leitt fram sjónarmið sem sum hver hafa ratað inn í fyrirvarana en sum ekki. Nokkur þeirra sjónarmiða koma fram í breytingartillögum okkar framsóknarmanna sem við leggjum fram til að reyna að betrumbæta stöðu þjóðarinnar gagnvart viðsemjendunum, Bretum og Hollendingum.

Í þessu samhengi er rétt að ítreka að afstaða mín hefur alla tíð verið sú að það er siðferðileg skylda okkar þingmanna að verja með kjafti og klóm hagsmuni Íslands og framtíð þjóðarinnar og þar með að standa við lagalegar og réttmætar alþjóðlegar skuldbindingar okkar, greiða réttmætar skuldir okkar en heldur ekki meira.

Frú forseti. Við skoðun samningsins kom í ljós og ég held að segja megi að þrátt fyrir allt séu allir þingmenn og þjóðin sammála um að ábyrgðin á samningnum og áhættan við að illa færi öll Íslands megin í honum. Bretar og Hollendingar virðast hafa fengið allt sitt fram og taka enga áhættu á sig þrátt fyrir að það hljóti að vera viðurkennt af öllum, og þar með bæði Bretum og Hollendingum, að hagsmunir allra landanna þriggja séu samtvinnaðir í því að vel gangi í íslensku efnahagslífi. Þess vegna var nokkuð breið samstaða um það í þinginu að setja fram fyrirvara til að lágmarka áhættu Íslands. Það tók hins vegar allt of langan tíma að fá þá breiðu samstöðu fram. Enn heyrast þau sjónarmið, til að mynda hjá hv. varaformanni fjárlaganefndar í morgun, að samningurinn sé góður og fyrirvararnir breyti honum ekkert.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur á köflum og hæstv. forsætisráðherra talað með svipuðum hætti. Því væri kannski rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann ætli að greiða afborganir af Icesave-samningnum samkvæmt fyrirvörunum eða samningnum sjálfum. Auðvitað hefðu allir þingmenn, þar með taldir þingmenn Samfylkingarinnar, hæstv. fjármálaráðherra og fylgismenn hans innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þurft að viðurkenna að samningurinn væri óaðgengilegur fyrir íslenska þjóð strax í sumarbyrjun og allir hefðu reynt að finna alla þá fyrirvara við ríkisábyrgðina sem menn teldu að þyrfti fyrir íslenska þjóð, ekki fyrirvara sem við gætum laumað inn án þess að styggja Breta og Hollendinga.

Virðulegi forseti. Eftir að sú mikla vinna sem lögð hefur verið í þetta verk, m.a. af fjárlaganefnd og fólki innan þingsins í að fá samninginn fram í dagsljósið, skoða hann, fá sérfræðinga til að meta og gefa álit, erum við á handahlaupum við að reyna að enda þetta mál, setja punkt við umræðu um vonlausan Icesave-samning með því að minnka áhættuna, minnka áhættuna með því að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina við samninginn. Ríkisábyrgð sem með samþykkt í þinginu staðfestir samninginn, hinn ósanngjarna Icesave-samning, eða gerir það í það minnsta að verkum að samningurinn tekur gildi.

Nú á endasprettinum dúkkar upp ný áhætta fyrir íslenska þjóð þegar menn með breiðri samstöðu héldu að við gætum hafa tryggt réttarstöðu Íslands með fyrirvörum við samninginn. Áhættan er sú að Bretar og Hollendingar líti einfaldlega fram hjá fyrirvörunum, enda rúmast þeir innan samningsins að mati forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og einstakra þingmanna. Hver er staða okkar þá, frú forseti?

Samkvæmt grein 6 í samningnum, um ábyrgð og skaðleysi, sérstaklega grein 6.5 sem nefnist í samningnum á sérkennilega óviðeigandi hátt „Fallið frá vörnum“, virðist við yfirlestur sem sú grein komi í veg fyrir að hægt sé að setja raunhæfa fyrirvara án samþykkis gagnaðila. Áhættan er sú að við gætum orðið skaðabótaskyld gagnvart Bretum og Hollendingum vegna ákvæða um óafturkallanlegar og skilyrðislausar ábyrgðir lántaka og skaðleysis lánveitanda. Lagalegur ágreiningur vegna samningsins og vanefnda hans færi þá fyrir dómstóla og það fyrir breska dómstóla og samkvæmt breskum lögum. Þar vega gildi íslensku stjórnarskrárinnar og ákvarðana Alþingis lítið eða ekkert. Er ekki nauðsynlegt, frú forseti, að við gefum okkur þann lágmarkstíma sem þarf til að fá sérfræðinga, jafnt innlenda sem erlenda, til að fara yfir lagalega stöðu okkar í þessu ömurlega máli?

Auðvitað væri best og ætti að hafa verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar í upphafi að hefja viðræður við Breta og Hollendinga um nýjan samning og/eða að löggilda fyrirvarana með einhverjum hætti þegar ljóst varð að samningnum yrði ekki þröngvað í gegnum þingið án skoðunar. Að mati Indefence-hópsins sem ég nefndi áður væri hægt að bæta inn í samninginn ákvæði þess efnis að ríkisábyrgðin tæki ekki gildi fyrr en gagnaðilar samningsins hefðu samþykkt þá sem órjúfanlegan hluta samningsins þrátt fyrir fyrrnefnd ákvæði samningsins um ábyrgð og skaðleysi. Í þessu ljósi langar mig að lesa smákafla úr fréttatilkynningu, með leyfi forseta, frá Indefence-hópnum:

„Sé það raunin að fyrirvarar Alþingis hafi ekki gildi samkvæmt breskum lögum eru alþingismenn í raun að samþykkja Icesave-samningana óbreytta, samninga sem meiri hluti þjóðarinnar og þingmanna telur óviðunandi.

Í ljósi þessarar óvissu er nauðsynlegt að Alþingi afli formlegs álits óháðra sérfræðinga í breskum lögum til að fá úr því skorið hvort fyrirvararnir við ríkisábyrgð hafi gildi fyrir breskum dómstólum. Slíkt sérfræðiálit þarf að berast Alþingi áður en frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningnum er afgreitt.“

Það hefur komið fram í máli einstakra þingmanna fjárlaganefndar að þetta mál verði tekið upp á milli 2. og 3. umr. og tel ég það afar nauðsynlegt og forsendur þess að við getum greitt atkvæði um ríkisábyrgðina.

Frú forseti. Skoðun mín og okkar framsóknarmanna hefur lengi verið ljós. Við teljum og höfum fengið stuðning við þá skoðun okkar frá mörgum utan þings sem innan að semja þurfi aftur. Í því sambandi má nefna að sérfræðingur í skuldaskilum þjóða og milliríkjasamningum, Lee Buchheit, sem kom fyrir fjárlaganefnd taldi að í raun skipti engu hvað við gerðum. Niðurstaðan yrði alltaf sú sama, að nauðsynlegt væri að fara til Breta og Hollendinga að semja að nýju því samningurinn væri einfaldlega slæmur og óaðgengilegur fyrir íslenska þjóð. Það er óþarfi að mati sérfræðingsins og tilgangslaust að gera allt of stóra grýlu úr samningsaðilunum því eins og hefur komið fram bæði í máli mínu og annarra þingmanna eru það sameiginlegir hagsmunir þessara þjóða að okkur Íslendingum gangi vel til að við getum staðið við skuldbindingar okkar. Því er langeðlilegast að fara og tala við þá augliti auglitis og láta þá ekki frétta í fjölmiðlum hvað við erum að gera.

Að öllu óbreyttu, ef allt fer án þess að tekið verði tillit til ýtrustu krafna, má segja að niðurstaða Icesave-samninganna, samningsins eins og hann var kynntur fyrir okkur að lokum í sumar sem samningsafurðar, sé ömurleg. Það lítur út fyrir að orrustan sé töpuð en stríðið er að hefjast. Þar munum við framsóknarmenn leggjast á eitt ásamt með þjóðinni og vonandi með sem flestum flokkum þingsins að berjast fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Við viljum geta gengið sem uppreist þjóð með öðrum þjóðum. Það gerist ekki með því að taka á sig ósanngjarnar og óréttmætar byrðar sem knýja þjóðina niður á hnén.

Frú forseti. Lokaorð mín eru því ákall til ríkisstjórnar, þingmanna og meiri hluta fjárlaganefndar að leita allra leiða til að tryggja réttarstöðu lands og þjóðar ef allt færi á versta veg, tryggja réttarstöðuna með því m.a. að tryggja að fyrirvararnir við ríkisábyrgðina haldi og fá fram staðfestingu Breta og Hollendinga á þeim skilningi okkar og þar með að hefja raunverulegar viðræður við þá aftur. Fjárlaganefnd verður því að fjalla um málið á milli umræðna og reyna allt sem í valdi og krafti nefndarinnar stendur til að tryggja réttarstöðu þjóðarinnar. Við eigum ekki að samþykkja eitthvað sem við vitum ekki hvort haldi. Við verðum að hafa fullvissu fyrir því áður en við greiðum atkvæði um eitt það allra stærsta mál er varðar þjóðarhag um aldir.